Yfirskrift hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og Jafnréttisskólans (GRÓ-GEST) vorið 2022 er Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi.
Hinsegin fræði eru náskyld kynjafræði en á báðum sviðum er leitast við að varpa gagnrýnu ljósi á fjölbreytt valdatengsl og afbyggja — afhjúpa og skjöna — hið gagnkynhneigða forræði. Athyglinni er beint að þeim áhrifum sem hefðbundnar hugmyndir um kyn eða kynverund hafa á fólk, samfélag og menningu. Í fyrirlestraröðinni eru kynntar fjölbreyttar og þverfaglegar rannsóknir á hinsegin Íslandi fyrr og nú og gagnvirku sambandi þess við önnur samfélög og menningarsvæði.
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands, reið á vaðið þann 3. febrúar með fyrirlestri um alnæmisfaraldurinn á Íslandi í sögulegu ljósi. Næsti fyrirlestur verður í höndum Hjörvars Gunnarssonar, kennara við Brekkubæjarskóla, og Jón Ingvars Kjarans, prófessors við menntavísindasviðs Háskóla Íslands, þann 10. febrúar þar sem þeir fjalla um upplifun samkynhneigðra karla af asískum uppruna á Íslandi af stöðu sinni sem hluti af tveimur jaðarhópum. Þorsteinn Vilhjálmsson, doktorsnemi í sagnfræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands, beinir sjónum að Megasi, hinseginleika og friðhelgi listamannsins þann 17. febrúar. Daniela Alaattinoglu, nýdoktor við lagadeild Háskóla Íslands, flytur erindi um baráttuna fyrir réttindum intersex fólks á Íslandi þann 24. febrúar. Xinyu Zhang, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, skoðar Kristnihald undir jökli frá sjónarhorni hinsegin fræða þann 3. mars. Tveimur vikum seinna, þann 17. mars, fjallar bókmenntafræðingurinn og kvikmyndafræðikennarinn Guðrún Elsa Bragadóttir um hinsegin kvenleika í íslenskum kvikmyndum. Lokafyrirlesturinn á misserinu flytur svo Eyrún Eyþórsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, þar sem hún fjallar um hatur og hatursglæpi gegn hinsegin fólki.
Fyrirlestraröðin fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og í streymi. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu og Facebook-síðu RIKK auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK til að fá sendar reglulegar upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar. Fyrirlestrarnir verða ýmist á íslensku eða ensku. Fyrirlestraröð RIKK með sömu yfirskrift tekur svo aftur upp þráðinn á haustmisseri 2022.