Dr. Zilka Spahić-Šiljak, dósent, er þriðji fyrirlesari í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og UNU-GEST – Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – á vormisseri 2019. Fyrirlestur hennar nefnist: „Fórnarlamb eða þolandi? Að velja sér sjálfsmynd og öðlast viðurkenningu í kjölfar kynferðisofbeldis á stríðstímum í Bosníu“ og að venju er fyrirlesturinn fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, fimmtudaginn 7. febrúar kl. 12:00-13:00.
Í kjölfar hræðilegra stríðsglæpa í Bosníu og Hersegóvínu, fjöldamorð og nauðganir á konum og körlum, lifa margir þolendur í skugga fordóma og þöggunar sem viðhaldið er í nafni menningar og trúar með áherslu á að verja stolt og heiður fjölskyldu og þjóðar. Þjóðernislegar frásagnir sem undirstrika menningarlega og stjórnmálalega sérstöðu ýta undir afleiðingar áfalla og auka á þjáningu þolendanna. Í fyrirlestrinum mun Zilka fjalla um 1) líkamspólitík og þjóðernisvæðingu kvenlíkamans; 2) hvernig femínísk barátta og umræður um fórnarlömb og þolendur hefur áhrif á sjálfsmynd kvenna; 3) hvernig hægt sé að sneyða framhjá tvíundinni fórnarlamb/þolandi, sem er viðhaldið af alþjóðastofnunum, fræðaheiminum og kvennasamtökum, og endurnýja orðaforðann um sjálfsmyndir. Zilka Spahić Šiljak er doktor í kynjafræði og í rannsóknum sínum fæst hún við mannréttindi, stjórnmál, trúarbrögð, menntun og friðaruppbyggingu. Hún hefur starfað við kennslu á háskólastigi undanfarin fimmtán ár, störf fyrir hið opinbera og þriðja geirann. Hún kennir menningarfræði við Zenica-háskóla og við Rannsóknastofnun í þverfaglegum fræðum við Sarajevo-háskóla. Zilka hefur einnig starfað að rannsóknum við Stanford-háskóla síðastliðin fjögur ár. Hún er höfundur bókanna: Shining Humanity – Life Stories of Women Peacebuilders in Bosnia and Herzegovina, Cambridge Scholars Publishing, UK, 2014, Contesting Female, Feminist and Muslim Identities. Post-Socialist Contexts of Bosnia and Herzegovina and Kosovo, 2012; Women Religion and Politics, 2010. Zilka vinnur nú að bók um kyn, menningu og forystu. Þá stýrir hún einnig Transcultural Psychosocial Educational Foundation í Sarajevo þar sem einnig er unnið með áföll, minni og heilun.
Fyrirlesturinn er á ensku og er öllum opinn.
Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á vormisseri 2019 er tileinkuð sambandi kyns, áfalla og heilsufars. Rannsóknir á áhrifum skaðlegrar reynslu á bernskuárum hefur á undanförnum árum veitt hugmyndum um áhrif uppvaxtarskilyrða á heilsufar og velferð á fullorðinsárum nýtt líf. Fyrirlesarar úr mismunandi greinum munu í fyrirlestraröðinni fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum. Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.
Myndbandsupptaka af fyrirlestri Zilku: