Alþjóðleg ráðstefna norræna samstarfsnetsins NORA í kynja- og jafnréttisfræðum verður
haldin dagana 22.–24. maí 2019 við Háskóla Íslands. Ráðstefnan ber yfirskriftina „Border Regimes,
Territorial Discourses and Feminist Politics“ og er haldin á vegum RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum í samstarfi við Alþjóðlegan Jafnréttisskóla (UNU-GEST) og ransóknasetrið EDDU við Háskóla Íslands.
Á ráðstefnunni verða fluttir tæplega 250 fyrirlestrar og fimm lykilfyrirlestrar um álitamál sem varða m.a. landamæri og jafnréttismál á tímum vaxandi þjóðernishyggju, afnýlendustefnu, femínískt andóf, popúlisma, hinsegin fræði, frumbyggjafræði, og fólksflutninga.
Lykilfyrirlesarar eru:
Diana Mulinari, prófessor í kynjafræði við Háskólann í Lundi. Í fyrirlestri sínum, „Feminist Visions in
Troubled Times“, mun hún fjalla um dystópíska orðræðu samtímans varðandi samskipti kynjanna, kyngervi og fjölskyldutengsl og nýja strauma í feminískri fræðimennsku.
Miriam Ticktin, dósent í mannfræði við The New School for Social Research í New York. Fyrirlestur hennar ber yfirskriftina „Beyond Innocence: Feminism and the Commons“ og fjallar um tengslin milli sakleysis og stjórnmála með vísan í vald og rýmismörk og „femínískt almannarými“.
Rauna Kuokkanen, rannsóknarprófessor í frumbyggjafræðum við Háskólann í Lapplandi. Í erindinu, sem ber heitið „Post-State Indigenous Feminist Sovereignties“, mun hún fjalla um samísku hreyfinguna Ellos Deatnu! (Lengi lifi Deatnu!) og hugmyndir um femínískt fullveldi meðal frumbyggja.
Madina Tlostanova, prófessor í eftirlendu- og kynjafræði við Háskólann í Linköping. Í fyrirlestri sínum, „Decoloniality, Border Thinking and Feminism in the Futureless World“, mun hún fjalla um landamærahugsun sem lykilhugtak í tengslum við afnýlenduvæðingu.
Kim TallBear, dósent við deild frumbyggjafræða í Háskólanum í Alberta. Fyrirlestur hennar ber yfirskriftina „Tipi Confessions and the RELAB: Decolonizing Indigenous Sexualities, and Research-Creation“. Þar mun hún fjalla um list- og rannsóknastofuna RELAB sem rekin er við frumbyggjadeild Alberta-háskóla í samvinnu við listafólk af ættum frumbyggja. Hún mun m.a. greina frá sögusýningunni Tipi Confessions og hvernig hún hefur varpað ljósi á samspil hinsegin fræða og listsköpunar.
Á ráðstefnunni verða fimm málstofur sem eru opnar öllum á meðan húsrúm leyfir. Opnu málstofurnar fara allar fram í fyrirlestrasalnum í Veröld – húsi Vigdísar og Odda og .
Miðvikudaginn 22. maí á milli klukkan 15:15 og 17:15 er málstofan Far-Right Projects í stofu 101 í Odda.
Fimmtudaginn 23. maí á milli klukkan 11:00 og 12:30 er málstofan The Politics of White í stofu 101 í Odda.
Föstudaginn 24. maí eru tvær opnar málstofur, Gender and Nationalism og Creativity, Resistance, and Change in Times of Crises: Who is
the Subject Speaking? Verða málstofurnar báðar haldnar í Veröld – húsi Vigdísar á milli klukkan 13:15 og 15:15
Dagskrá og nánari upplýsingar um viðburði má finna hér.
#NORAgender2019