Cynthia Trililani er sjötti fyrirlesari hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2024 en röðin er tileinkuð samtvinnun. Fyrirlesturinn nefnist „Empowerment and Agency at the Margins: Immigrant Women’s Pursuit of Higher Education” og verður haldinn kl. 12.00, fimmtudaginn 18. apríl, í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Í erindi sínu fjallar Cynthia um reynslu innflytjendakvenna af háskólanámi og samhengi þeirra þátta, svo sem menningarlegra og félagslega sem ýta undir eða takmarka möguleika þeirra til menntunar. Í erindinu er kenningum samtvinnunar beitt til að greina viðtöl við innflytjendakonur á Íslandi út frá kyni, kynþætti, stétt og tungumáli. Meðal þess sem kemur fram í erindinu er það hvernig menntun dregur úr jaðarsetningu og mismunun auk þess að vera valdeflandi og leið fyrir konurnar sjálfar til að markað sér og börnum sínum betri framtíð. Einnig er varpað ljósi á það hvernig samtvinnun sjálfsmyndar og reynslu innflytjendakvenna á Íslandi er lykilatriði þegar kemur að því að brjóta niður ríkjandi staðalímyndir og hlutdrægni í garð innflytjendakvenna sem og að stuðla að umhverfi sem hvetur til virkari þátttöku þeirra í íslensku samfélagi.

Cynthia Trililani lauk meistaraprófi í mennunar- og kynjafræði frá Háskóla Íslands og stundar nú doktorsnám við Deild menntunar og margbreytileika við sama skóla. Í doktorsnámáminu hefur hún fyrst og fremst rannsakað áskoranir, upplifun og reynslu innflytjendakvenna, einkum mæðra af háskólamenntun hér á landi.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.