Við Háskóla Íslands er laust til umsóknar hálft starf verkefnastjóra við RIKK – rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum. Leitað er að öflugum einstaklingi sem mun starfa að uppbyggingu, rekstri og þróun verkefna. Möguleiki er að starfið þróist í fullt starf á næstu misserum.

Umsækjendur skulu hafa lokið meistaraprófi á sviði hug-, mennta- eða félagsvísinda með áherslu á kynja-, margbreytileika- eða jafnréttisfræði. Æskilegt er að umsækjendur hafi reynslu af verkefnastjórnun og jafnréttisstarfi og að þeir hafi unnið í alþjóðlegu umhverfi. Góð tungumálakunnátta er áskilin og mjög gott vald á ritaðri ensku er grundvallaratriði, þekking á einu Norðurlandamáli er ennfremur kostur; samskiptahæfni, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum eru skilyrði.

Helstu verkefni eru daglegur rekstur RIKK; þróun rannsóknaverkefna; vinna við styrkumsóknir; kortlagning rannsókna, mat á árangri verkefna og eftirfylgni; gerð fjárhags- og rekstraráætlana; samstarf við innlenda og erlenda aðila; kynningarstörf, fréttabréf, vefsíður, ofl; skipulagning og umsjón með málþingum, ráðstefnum og bókaútgáfu; upplýsingagjöf.

Um er að ræða krefjandi starf í metnaðarfullu umhverfi. Viðkomandi þarf að geta hafið störf á tímabilinu 1. september til 1. nóvember 2014. Ráðið verður í starfið til eins árs með möguleika á framlengingu.

Laun miðast við kjarasamning fjármálaráðherra og Félags háskólakennara.

Umsóknarfrestur er til 18. ágúst 2014. Umsókn og umsóknargögn skulu berast á rafrænu formi á netfangið starfsumsoknir@hi.is merkt HI1407011 eða til starfsmannasviðs Háskóla Íslands, Aðalbyggingu við Suðurgötu, 101 Reykjavík. Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verði tekin. Nánari upplýsingar veita Sólveig Anna Bóasdóttir, stjórnarformaður RIKK, netfang: solanna@hi.is, og Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður; netfang: irma@hi.is; sími: 8222371.

RIKK vekur að auki athygli á þremur öðrum störfum sem öll snerta jafnréttismál og eru nú laus til umsóknar, sjá: www.starfatorg.is:

1. Verkefnastjóri við EDDU: http://www.starfatorg.is/kennsla_rannsoknir/nr/18241

2. Verkefnastjóri við Alþjóðlegan jafnréttisskóla (UNU-GEST): http://www.starfatorg.is/serfraedistorf/nr/18235

3. Akademískur sérfræðingur við Alþjóðlegan jafnréttisskóla (UNU-GEST): http://www.starfatorg.is/kennsla_rannsoknir/nr/18238