Veljum Vigdísi – á forsetastóli 1980-1996

Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum tekur þátt í að skipuleggja tvær málstofur á alþjóðlegri ráðstefnu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur 14.-15. apríl, Samræðum menningarheima. Önnur þeirra er málstofa um kosningabaráttu Vigdísar Finnbogadóttur og forsetaferil hennar, en hún fer fram í Háskólabíó, sal 2 og ber yfirskriftina Veljum Vigdísi  – á forsetastóli 1980-1996.

Sumarið 1980 gerðust þau tíðindi að kona var í fyrsta sinn kjörin forseti í heiminum í lýðræðislegum kosningum. Það var frú Vigdís Finnbogadóttir þá leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur sem sigraði í forsetakosningunum sem haldnar voru í júní. Í sumar verða því liðin 25 ár frá kjöri hennar. Vigdís bauð sig fram ásamt þremur körlum og var kosningabaráttan bæði spennandi og lærdómsrík ekki síst út frá orðræðunni um getu og hlutverk kvenna. Kjörorð Vígdísar var Veljum Vigdísi sem skýrir yfirskrift málstofunnar.

Málstofustjóri verður Sigríður Dúna Kristmundsdóttir prófessor við Háskóla Íslands. Rósa Erlingsdóttir stjórnmálafræðingur flytur erindi um kosningabaráttu Vigdísar sem hún kallar „Ég hefði kosið hana þó að hún hefði verið karl“. Það er fróðlegt að skoða 25 árum síðar hvernig umræðan fór fram, hverjar áherslurnar voru og hvaða rökum var beitt með og á móti. Þeir sem muna þessa kosningabaráttu minnast þess ekki síst að hamrað var á því að einstæð móðir gæti ekki gegnt embætti forseta auk mikillar vantrúar á því að kona gæti sinnt því með sóma. Annað átti heldur betur eftir að koma í ljós.

Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands fjallar um forsetatíð Vigdísar en hún var endurkjörin alls þrisvar sinnum og sat því á forsetastóli í 16 ár. Svanur kallar erindi sitt: „Embætti forseta Íslands og íslensk þjóðarvitund: Vigdís Finnbogadóttir“ Í erindinu verður fjallað um söguleg tengsl embættis forseta Íslands, íslenskrar þjóðarvitundar og utanríkisstefnu landsins. Orð og athafnir Vigdísar verða bornar saman við þrjá forvera hennar á fosetastóli: Svein Björnsson (1944-1952), Ásgeir Ásgeirsson (1952-1968) og Kristján Eldjárn (1968-1980).

Eftir erindin tvö flytja ávörp þau Svanhildur Halldórsdóttir skrifstofustjóri BSRB, Friðrik Pálsson framkvæmdastjóri og Una Björg Einarsdóttir stjórnmálafræðingur. Svanhildur var kosningastjóri Vigdísar vorið 1980 og hefur frá mörgu að segja sem gerðist í baráttunni. Friðrik Pálsson var einn þeirra fulltrúa atvinnulífsins sem ferðaðist með Vigdísi víða um heim til að kynna íslenska framleiðslu. Vigdís tók upp þann sið að bjóða fulltrúum atvinnulífsins með sér í opinberar heimsóknir og skilaði það ómældum árangri við að markaðssetja íslenskar vörur. Una Björg tilheyrir þeirri kynslóð sem óx úr grasi meðan Vigdís var forseti auk þess sem hún skrifaði lokaritgerð þar sem hún bar saman Vigdísi Finnbogadóttur og Margréti Thatcher sem leiðtoga.

Að loknum ávörpum verða umræður og sitja fyrirlesarar í pallborði.

Dagskrá:

Málstofustjóri: Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, prófessor.
Erindi:
Rósa Erlingsdóttir: „Ég hefði kosið hana, þó að hún hefði verið karl“
Svanur Kristjánsson: „Embætti forseta Íslands og íslensk þjóðarvitund: Vigdís Finnbogadóttir“.
Ávörp:
Svanhildur Halldórsdóttir: „Í kosningabaráttu með Vigdísi“
Friðrik Pálsson: „Á ferð um heiminn – atvinnulífið og Vigdís“.
Una Björg Einarsdóttir: „ Fyrirmynd á forsetastóli“.