Fimmtudaginn 24. mars heldur Auður Aðalsteinsdóttir, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, fyrirlesturinn: „Væmnisverðlaun og kvennasápur: Skiptir kyn bókmenntagagnrýnanda máli?“ Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.00-13.00.

Í erindinu verður spurt um mikilvægi þess að raddir kvenna og karla heyrist til jafns á vettvangi bókaritdóma, rétt eins og á öðrum sviðum. Ef litið er aftur í tímann, til fyrstu 150 ára íslenskrar fjölmiðlunar, blasir svarið við: karlstýrð menningarumræða hefur skilað okkur bjagaðri mynd af fortíðinni og þaggað raddir margra þeirra sem töldu sig hafa eitthvað fram að færa.

Það getur þó verið hættulegt að leggja of mikla áherslu á kyn ritdómarans. Slíkt getur ýtt undir hugmyndir um að eðlislægur grundvallarmunur sé á skrifum, lestri og áhugasviðum kynjanna, en í gegnum tíðina hefur slíkur aðskilnaður á kvenlegum og karllegum viðfangsefnum ætíð ýtt konum út af sviði alvarlegrar menningarumræðu. Þessi togstreita, sem endurspeglar einn af lykilátakapunktum femínískra fræða, verður meginþráður þessa fyrirlesturs.