RIKK hefur birt úttekt á Bjarkarhlíð – miðstöð fyrir þolendur ofbeldis sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. Miðstöðin opnaði í byrjun mars 2017 og var til ársloka 2018 skilgreind sem tilraunaverkefni. Að þeim tíma liðnum var ákveðið að festa starfsemina í sessi til framtíðar. Í úttektinni er gerð grein fyrir helstu styrkleikum og veikleikum verkefnisins og gefin innsýn í hvernig til hefur tekist ásamt því að skoða mögulegar leiðir til umbóta. Úttektin er unnin af RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum sem hluti af samstarfssamningi RIKK og Reykjavíkurborgar.

Matið byggir á fyrirliggjandi gögnum frá Bjarkarhlíð, megindlegum og eigindlegum, um starfsemina almennt, þjónustuna, þjónustuþegahópinn og viðhorf þjónustuþega auk þess sem nýrra gagna var aflað með viðtölum, samráðshópum og tölvupóstum. Í matsteyminu voru Elín Björk Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri hjá RIKK, sem hafði yfirumsjón með úttektinni og Kristín A. Hjálmarsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður, sem sá um framkvæmd úttektarinnar fyrir hönd RIKK.

Úttektina má nálgast hér.