StadgongumaedrunRIKK hefur skilað inn til nefndasviðs Alþingis umsögn um frumvarp til laga um staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Stofnunin leggst eindregið gegn því að frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði í lög leitt.

Umsögn RIKK en hún fylgir einnig í PDF-skjali:  

Umsögn RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum um frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015-2016)

RIKK leggst eindregið gegn því að frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði í lög leitt.

Frumvarpið hefur tekið umtalsverðum breytingum frá því þingsályktunartillaga um málið var fyrst lögð fyrir Alþingi 2010 og tekið hefur verið á ýmsum vanköntum sem blöstu við í fyrri útgáfum. Þrátt fyrir það er það mat RIKK að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, þar sem góð­viljuð kona – gefur afnotarétt af líkama sínum í 9 mánuði til meðgöngu og fæðingu barns í velgjörð, til þess að uppfylla óskir og þrár annarra um að eignast börn, geti aldrei verið ásættan­leg.

Í fyrirliggjandi frumvarpi eru nú margvísleg ákvæði sem eiga að tryggja rétt staðgöngumóður til þess að halda fullu forræði og ákvörðunarrétti yfir eigin líkama meðan á meðgöngu og fæðingu stendur, sem og til þess að skipta um skoðan hvenær sem er í ferlinu og þá fara í fóstur­eyðingu eða halda barninu sjálf. Eftir stendur að verði frumvarpið að lögum eykst félags­legur þrýstingur á að fórnfúsar og góðhjartaðar konur gerist staðgöngumæður til þess að auka hamingju annarra, og ganga þannig inní flókin líffræðileg og tilfinningaleg valdasambönd við væntanlega foreldra. Frjálst val konu til þess að ákveða að ganga inní það ferli að gerast stað­göngumóðir, og síðan vald hennar yfir eigin líkama og því afkvæmi sem hún ber undir belti, er rækilega skilyrt. Það byggir á því að hún eyðileggi vonir, væntingar og drauma væntanlegra foreldra sem hún hefur átt í samskiptum við og gert samkomulag við. Valdi konu í slíkum að­stæðum eru þröngar skorður settar og því tæplega hægt að tala um að hún hafi frjálst val.

Þá byggir skýlaus krafa um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, með ströngum viðurlögum og eftirliti sem á að tryggja að „gæða konan góða“ geti ekki með nokkru móti hagnast á gjörning­num, á lífsseigum mýtum um hina góðu og fórnfúsu konu, sem er tilbúin að leggja eign velferð og hamingu til hliðar til þess að hámarka hamingju annarra. Viðhald slíkra kvenímynda getur ekki talist valdeflandi fyrir konur og því ekki líklegt til þess að auka jafnrétti kynjanna í sam­félaginu.

Loks ber að árétta að verði frumvarpið í lög leitt verður Ísland fyrst Norðurlandanna til þess að lögleiða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það er mat RIKK að staðgöngumæðrun sé svo flókið og vandasamt siðferðilegt úrlausnarefni, og að óvissuþættir og álitamál við framgang slíks gjörnings séu enn svo margir, að ekki sé forsvaranlegt að lögleiða frumvarpið. Bent hefur verið á að staðhæfingar um að rannsóknir sýni að staðgöngumæðrun á Vesturlöndum séu vel heppnaðar og án vandamála eru orðum auknar. Hið rétta er að skortur er á langtímarannsóknum á velferð og heilsu staðgöngumæðra. Einnig er skortur á rannsóknum af upplifun þeirra og aðstæðum (Jónína Einardóttir og Helga Finnsdóttir, 2013). Hér er því tekið undir með Sólveigu Önnu Bóasdóttir (2011), prófessor í guðfræðilegri siðfræði, sem áréttaði að samkennd með fólki sem þráir að eignast barn megi ekki afvegaleiða skynsemi okkar, hvað þá víkja siðferðinu til hliðar.

Eftir að hafa lýst yfir almennri andstöðu við frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í vel­gjörðarskyni verða nú gerðar efnislegar athugasemdir við einstaka liði þess.

Áherslur á erfðafræðilegan skyldleika

Í frumvarpinu kemur ítrekað fram einkennileg og nokkuð misvísandi afstaða til erfðafræðilegs skyldleika.

Í grein 8. 4. er kveðið á um að hvorki staðgöngumóðir né maki hennar skuli vera systkini, eða skyld í beinan legg, því væntanlega foreldri sem leggur til kynfrumur. Hér er í annan stað verið að forðast að upp komi flókin skyldleikatengsl. Hins vegar er ákvæðinu ætlað að „koma í veg fyrir óæskilegan þrýsting sem talið er líklegra að geti skapast milli blóðtendra aðila en þegar slík tengsl eru ekki fyrir hendi.“ Engar kvaðir eru þó settar fram sem takmarka skyldleika við verðandi foreldra sem ekki leggja til kynfrumur, en slíkt getur opnar fyrir sterkan félagslegan þrýsing á að ganga með barn fyrir ófrjóa systur eða frænku.

Í 10. grein er fjallað um notkun kynfruma og fósturvísa. Þar er því hafnað að staðgöngumóðir noti eigin kynfrumur, sem þýðir að eingöngu „full staðgöngumæðrun“ sem krefst glasa­frjóvgunar, verður leyfð. Rökin fyrir því eru að tilfinningatengsl móður og barns á meðgöngu séu sterkari ef staðgöngumóðir leggur sjálf til eggfrumur. Hér er dregið í efa að líffræðileg tengsl móður og fósturs sé úrslitaþáttur sem ræður tengslamyndun á meðgöngu. Í staðinn má túlka áhersluna á „full staðgöngumæðrun“ án erfðafræðilegra tengsla staðgöngumóður og barns, sem svo að litið sé á líkama staðgögnumóður sem hylki – eða útungunarvél – þar sem komið er fyrir frjóvguðu eggi og síðan beðið átekta í 9 mánuði, án flókinna tilfinningatengsla og eftirmála.

Í 10. grein segir einnig: „Við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er skylt að nota kynfrumu frá að minnsta kosti öðru væntanlegra foreldra.“ Og í athugasemdum við einstakar greinar frum­varpsins segir, um grein tíu:

lagt er til að barn sem verður til við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eigi alltaf líffræðilega tengingu við væntanlegt foreldri sem þykir auka líkur á að væntanlegir foreldrar standi við skuldbindingu sína um að ganga barni í foreldrastað.

Í framhaldi af því er svo áréttað:

Af þessari ástæðu stendur staðgöngumæðrun ekki til boða einstaklingi sem ekki getur lagt fram kynfrumu eða pari sem nota þarf bæði gjafasæði og gjafaegg.

Fyrri klausan, um að auka þurfi líkur á að væntanlegir foreldrar standi við skuldbindingar sínar með einhverskonar erfðafræðilegri tryggingu er í hæsta máta einkennileg, og er forvitnilegt að setja hana í samhengi við lög og umræður um ættleiðingar, þar sem erfðafræðilegur skyldleiki er ekki til staðar til þess að tryggja að væntanlegir foreldrar hlaupist ekki undan merkjum.

Því til viðbótar setur krafan um erfðafræðilegan skyldleika af stað ákveðnar hreyfingar á valda­jafnværi í parasamböndum, þar sem einungis annar aðilinn getur lagt til sínar kynfrumur. Í gr. 40 þar sem fjallað er um breytingar á barnalögum, hvað varðar yfirfærslu á foreldrastöðu, er hins vegar reynt að girða fyrir slíkan valdamismun. Þannig er reynt að tryggja jafna stöðu beggja aðila (þótt aðeins annað hafi lagt til kynfrumur) ef væntanlegir foreldrar slíta samvistum, sömuleiðis í tilfellum þar sem annað eða bæði af væntanlegum foreldrum, hætta við og hafna yfirfærslu á foreldrastöðu. Loks er girt fyrir það að væntanlegur faðir, geti höfðað faðernismál, gegn staðgöngumóður, sem hættir við og ákveður að halda barninu sjálf, þótt hann hafi lagt til kynfrumur (sæði).

Krafan um líffræðilega tengingu við væntanlega foreldra leiðir til þess, eins og segir í umsögn um grein tíu, að staðgöngumæðrun stendur „ekki til boða einstaklingi sem ekki getur lagt fram kynfrumu eða pari sem nota þarf bæði gjafasæði og gjafaegg.“

Ef fallist er á réttmæti staðgöngumæðrunar yfirleitt, sem úrlausn fyrir fólk sem glímir við frjó­semisvanda, má spyrja hvort hér sé gætt fulls jafnræðis. En svo virðist sem einhleypar konur, sem og jaðarsettir hópar eins og intersex einstaklingar og transfólk, séu hér í sérlega viðkæmri stöðu. Ætla má að einhleyp kona sem óskar eftir staðgöngumæðrun, glími við skerta frjósemi af einhverju tagi (annars myndi hún einfaldlega fara í tæknifjóvgun). Gift kona sem glímir við sama vandamál, getur hins vegar fengið lausn á sínum vanda í krafti sæðis frá eiginmanni, á meðan einhleypu konunni virðast allar bjargir bannaðar.

Verði frumvarpið að lögum leggur RIKK því til að vikið verði frá afdráttarlausri kröfu um að væntanlegir foreldrar leggi sjálfir til kynfrumur.

Erlend staðgöngumæðrun

Í 6. grein kemur fram að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skuli ákvarða um foreldrastöðu barns sem fæðist í samræmi við erlend lög um staðgöngumæðrun. Í 26. grein er svo nánar fjallað um erlenda staðgöngumæðrun, en þar er skýrt tekið fram að nefndin muni synja um staðfestingu ef erlend staðgöngumæðrun hefur gengið í berhögg við grunnreglur íslensk réttar (og t.d. verið staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni). Í frumvarpinu kemur þó skýrt fram að hagsmunir barnsins skuli ávalt hafðir í forgangi. Í tilfellum þar sem staðgöngumæðrun (í hagnaðarskyni, með t.d. indverskri staðgöngumóður) hefur þegar farið fram erlendis, og barn orðið til, má færa fyrir því gild rök að það sé yfirleitt barninu fyrir bestu að fá að flytja með væntanlegum (íslenskum) foreldrum hingað til lands og verða hér löggildur þegn.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að lögleiðing staðgöngumæðrunar í einstaka löndum, t.d. Bretlandi og Ástralíu, hafi ekki dregið úr aðsókn í þjónustu staðgöngumæðrunar erlendis (sjá Jónína Einarsdóttir og Helga Finnsdóttir, 2013). Ástæður þess að pör eða einstaklingar sem eiga kost á slíkri þjónustu heima fyrir leita erlendis geta verið margvíslegar. Til dæmis að ekki fáist stað­göngumóðir í heimalandinu, að viðkomandi uppfylli ekki þau skilyrði sem sett eru til þess að leyfi til staðgöngumæðrunar sé veitt, t.d. vegna aldurs eða hjúskaparstöðu (hér á landi gæti krafan um að væntanlegir foreldrar leggi til kynfrumur verið slík hindrun), það að hægt sé að fá betri, hraðvirkari og ódýrari þjónustu erlendis og loks að auðveldara sé að tryggja nafnleynd og varanlega fjarveru erlendrar staðgöngumóður úr lífi barns.

Gera má ráð fyrir að lögleiðing staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni, verði til þess að normalisera ferlið sem kærkomna lausn á frjósemisvanda og barnleysi. Í kjölfarið má búast við að tilfellum þar sem væntanlegir foreldrar leita erlendis eftir þjónustu staðgöngumæðra muni fjölga, líkt og gerðist í Bretlandi. Nefnd um staðgöngumæðrun í velferðarskyni hefði ekki að­komu að slíkum málum fyrr en eftir að barn er komið í heiminn, sem torveldar allt eftirlit og ýtir undir að teygt sé á gildandi reglum og þær sveigðar til.

Umsögn RIKK um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni