Umfjöllun um ömmur á Hugrás

Hugras_MargarMyndirHugrás – vefrit Hugvísindasviðs Háskóla Íslands birtir í dag, 19. október, skemmtilega umfjöllun um fyrirlestraröð RIKK, Margar myndir ömmu.

Talað er við Erlu Huldu Halldórsdóttur, sagnfræðing, sem var ein af fyrirlesurum í röðinni sem segir m.a:

„Það kom okkur ekki á óvart að ömmurnar væru vinsælar, við áttum alveg von á því, en þarna kemur fram sterk þörf fólks til að ræða um ömmur og fá svolítið aðra sýn á söguna. Fyrirlestraröðin gengur út á það að segja sögur af ömmum sem koma úr mismunandi stéttum, áttu mismunandi líf, lifðu mismunandi tíma, því fræðimennirnir sem tóku þátt eru á ýmsum aldri, þannig að við fengjum svolítið fjölbreytta mynd af lífi kvenna á 20. öld. Við sáum fyrir okkur að þetta yrðu ekki kaldar, fræðilegar frásagnir heldur persónulegar sögur og að áheyrendur gætu tengt við þær; mögulega fundið sínar eigin ömmur í þessum sögum og speglað sína eigin reynslu í þeim. Það held ég að hafi gerst, og að ömmurnar snerti einhvern streng í brjósti flestra. Þó að við höfum ekki öll þekkt ömmur okkar þá eiga ömmur sérstakan stað í hjarta fólks. Sumar ólu barnabörnin sín beinlínis upp eða tóku mikla ábyrgð á uppeldi þeirra og höfðu mótandi áhrif. Svo held ég reyndar líka, sem sagnfræðingur, að fólk þrái að heyra aðra sögu en þessa venjulegu sem þú lest í sögubókum eða heyrir í fjölmiðlum. Þá eru þetta yfirleitt karlarnir með bindin, ríkisstjórnir og allt það, sem er líka merkilegt, en það vantar einhvern veginn þetta persónulega, og kannski líka þetta kvenlega í sögunni; annan reynsluheim.“

Vefslóð á umfjöllunina: http://hugras.is/2015/10/ommur-og-fjolbreytni-sogunnar/.