Um móðurina í lífi og störfum Ólafíu Jóhannsdóttur

Þann 29. september hélt Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, mannfræðingur, erindið Um móðurina í lífi og störfum Ólafíu Jóhannsdóttur.

Í erindi sínu fjallaði Sigríður Dúna um Ólafíu Jóhannsdóttur sem fæddist á Mosfelli í Mofellssveit árið 1863. Hún er helst kunn fyrir störf sín að líknarmálum í Osló upp úr aldamótunum 1900, þar sem hún sinnti drykkjukonum og kvenföngum. Áður en Ólafía hóf störf í Noregi hafði hún gefið sig að ýmsum málum á Íslandi; hún var einn af stofnendum Hins íslenska kvenfélags og Hvítabandsins, barðist fyrir stofnun Háskóla Íslands og gegn áfengisbölinu. Ólafía var eftirsóttur fyrirlesari um þessi málefni og ferðaðist víða í því skyni.

Í erindinu fjallaði Sigríður Dúna um móðurina í lífi Ólafíu Jóhannsdóttur og leiðir líkur að því að sár reynsla á unga aldri hafi gert móðurina miðlæga í störfum þessarar baráttu- og trúkonu.