Ör-erindi Dagnýjar Kristjándóttur, prófessors í íslenskum nútímabókmenntum, á málþinginu „Minna hot í ár.“ Stjórnmálaorðræða á Íslandi, annó 2018, um kvenfyrirlitningu, þöggun og tvískinnung í íslenskri stjórnmálaorðræðu sem fór fram á vegum Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – RIKK – við Háskóla Íslands og Kvenréttindafélags Íslands, í Veröld – húsi Vigdísar hinn 5. desember 2018. Sjá nánar hér.

 

 

Þarftu að eyðileggja þessa góðu stund okkar?

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor

Bandaríski heimspekingurinn Judith Butler skrifaði bók um hatursorðræðu sem heitir Æsingatal (Excitable speech: A politics of the Performative) árið 1997. Þar talar hún um vald tungumálsins, við getum ekki án þess verið, við hugsum í orðum og sögum allan sólarhringinn, flokkum, greinum, röðum upp og reynum að skilja. Og engin orð eru hlutlaus. Orð verða gjörðir. Það er hægt að gera okkur gott með þeim og Það er hægt að ráðast á okkur með orðum. Orðagjörninga (e. speech act) kallar málvísindamaðurinn J. L. Austen kallaði það.

Við verðum vitni að þessu oft á dag og því sömuleiðis hve viðkvæm við erum gagnvart tungumálinu. Það kemur til dæmis fram í því að við tölum um að orð eða ummæli séu særandi, orðagjörningnum er lýst sem  líkamlegu ofbeldi – særandi og meiðandi.

Hluti af hinni uppbyggilegu hlið tungumálsins er að hægt er að svara slíkum árásum með því að svara þeim og snúa árásinni við. Sú vörn er hins vegar tekin úr sambandi með hatursorðræðunni vegna eðli hennar. Ef einhver kallar mig Áslaugu get ég leiðrétt það og sagst heita Dagný ef einhver segir að ég fari með rangt mál get ég hrakið það. En ef einhver kallar mig tík eða kuntu og segir að ég eigi skilið að vera barin eða mér nauðgað er það orðagjörningur sem er utan röklegra samskipta svo að sá sem særður var getur ekki varið sig fyrir ofbeldinu.

Dönsk þingkona segir: „Sem kona í pólitík kynnist maður strax óformlegum valdastrúktúrum. Það geta verið fundaboð sem skila sér ekki, ákvarðanir sem eru teknar á bar eftir fundi, röksemdir og viðhorf manns eru gerð hlægileg eða stjórnsamir karlar í hópnum „taka yfir“ og fá hrós og heiður fyrir góðar röksemdir eða góðar hugmyndir sem kona hefur sett fram.“

Þetta er návígið en verra er kynferðisleg áreitni frá ókunnugum mönnum sem flæðir yfir stjórnmálakonur á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum dagblaðanna, koma til þeirra í smáskilaboðum eða tölvupóstinum. 27% danskra stjórnmálakvenna sögðust hafa orðið fyrir slíkri áreitni.

Özlem Cekic, sem er með kúrdískan bakgrunn, en uppalin í Danmörku, var þingmaður á danska þinginu í átta ár. Hún hefur í sms-um verið kölluð kellíng, ísamistahóra, fucking andlýðræðissinni og fleiri ónefnum sem eru of gróf til að Berlinske tidende treysti sér til að birta það. Hún segir að það sé engu að síður auðveldara að tala um rasískar árásir og ofsóknir sem veki reiði og samúð fólks en kynferðislegar ofsóknir sem kalli á allt önnur viðbrögð Þá dragi menn sig frekar tilbaka og spyrji hvort ekki sé verið að oftúlka smá daður eða bara meinlaust grín. Í því samhengi koma athugasemdir eins og Gunnar Bragi kemur með í Klaustur upptökunum þegar Önnu Kolbrúnu Árnadóttur tekst loksins að brjótast inn í samtalið sem snýst þá um Írisi Róbertsdóttur:

Anna: Viljiði aðeins … Viljiði velta þessu fyrir ykkur, ef þetta vær​u​ karl …

Ólafur Ísleifsson: Æi …

Gunnar Bragi: Leyfðu okkur nú að eiga þessa stund saman …

Með öðrum orðum – ekki vera ferköntuð og leiðinleg, ekki spilla þessari góðu stemningu. Þetta segir líka – ef þú vilt vera hluti af hinni góðu stemningu okkar þingstrákanna verðurðu að taka þátt í að úthúða konum. Þetta er eineltisorðræða og sexismi sem konur í stjórnmálum þurfa nú að þola ofan á þá nýju hatursorðæðu samskiptamiðlanna sam karlar í stjórnmálum verða líka að taka á sig í dag. Kynferðislegar svívirðingar og ofsóknir og jafnvel afmennskun á vettvangi stjórnmála er staða sem enginn sá fyrir þegar konur fengu kosningarétt og kjörgengi fyrir öld síðan. Hún er ný og vex hratt allt í kringum okkur. Að því leyti til má kannski segja að Klaustursumræðurnar séu viðvörun og þörf áminning eða “wake-up-call” sem við verðum að bregðast við strax ef við viljum standa vörð um lýðræði og mannréttindi.

Heimildir:

Judith Butler. 1997. Excitable Speech. A Politics of Performative. New York: Routledge.

Line Tolstrup Holm: „Kvindelige politikere chikaneres, hånes og trues.“ Berlingske tidende, 4.06.2015. https://www.berlingske.dk/samfund/kvindelige-politikere-chikaneres-haanes-og-trues.