Annað kvöld, þriðjudaginn 7. desember og á miðvikudaginn 8. desember standa Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum og Alþjóðlegur jafnréttisskóli fyrir beinni vefútsendingu frá ráðstefnunni TEDKonur sem er haldin í Washington í Bandaríkjunum.

Mörg ykkar þekkja vafalaust frjálsu félagasamtökin TED (Technology, Entertainment, Design) sem standa fyrir ráðstefnum og fyrirlestrum þar sem kynntar eru áhugaverðar og oft framsæknar hugmyndir á ýmsum sviðum. Vefupptökur af TED viðburðum, sem má m.a. finna á heimasíðu TED, eru orðnar nokkuð vel þekktar í netheimum. Í þetta skiptið stendur TED fyrir ráðstefnu sem ber heitið TEDWomen eða TEDKonur. Um er að ræða spennandi dagskrá þar sem konur, og nokkrir karlar, frá hinum ýmsu löndum segja frá hugmyndum sínum og störfum en þau eiga það flest sameiginlegt að vera brautryðjendur og leiðtogar á sínum sviðum, á meðal fyrirlesara eru til dæmis Naomi Klein og Ellen Johnson Sirleaf. Sjá nánari upplýsingar um ráðstefnuna og fyrirlesara hér.

Þau ykkar sem hafið áhuga á að koma og horfa á útsendinguna hjá okkur vinsamlega látið vita með því að senda tölvupóst á hildurfa@hi.is.