Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða viðhorf starfshópa á sjúkrahússdeild til samskipta og samvinnu, í ljósi þeirrar verkaskiptingar og þrepakerfisstýringu sem er fyrir hendi á sjúkrahúsum.

Rannsóknir og kenningar vinnusálfræðinnar um samvinnu og samskipti á vinnustað sýna m.a. mikilvægi samþættingar starfshópa og upplýsingaflæðis fyrir árangur starfs. Því hefur verið haldið fram að stjórnunarmunstur sjúkrahúsa; afgerandi verkaskipting og þrepakerfisstýring, komi í veg fyrir að þessar forsendur séu fyrir hendi þar. Einnig hafa m.a. ólík félagsmótun í lækna- og hjúkrunarfræðinámi og ólíkar áherslur í starfi verið rannsökuð í Þýskalandi, en þar er hjúkrunarnám ekki akademískt.

Stjórnun sjúkrahússins er þrískipt. Fagleg stjórnun er einn þáttur, og er hún tvískipt á milli hjúkrunar og lækninga. Hjúkrun og lækningar mynda tvær stærstu starfsstéttir sjúkrahússins en aðrir starfshópar heyra hver undir einn af þessum stjórnunarþáttum.
Sjúkrahúsdeild var valin sem rannsóknarvettvangur því þar fer grunnstarfsemi sjúkrahússins fram og viðhorf margra ólíkra starfshópa mætast í daglegu starfi.

Rannsóknaraðferðir: Notuð var eigindleg aðferðafræði og rannsóknasnið sem nefnist huglæg starfsgreining (subjektive Tätigkeitsanalyse). a) Tekin voru hálfstöðluð opin viðtöl við 10 starfsmenn úr öllum starfshópum skurðdeildar á íslensku sjúkrahúsi um samvinnu og samskipti starfshópanna eins og þau eru og eins og þau ættu að vera að mati viðkomandi. b) Í framhaldi var stofnað til rýnihóps með þessu sama starfsfólki og viðhorf þeirra rædd. c) Síðar voru aftur tekin viðtöl við þátttakendur. Á grundvelli niðurstaða voru tekin dæmi um leiðir til árangursríkara samstarfs og samskipta.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður viðtala leiddu í ljós sex þætti í samstarfinu sem áttu rætur sínar að rekja til ólíkra viðhorfa starfshópanna til samvinnu og samskipta.

Þessir þættir voru m.a:
Hefð fyrir formlegri samvinnu starfshópanna á deildum er ekki til staðar.
Starfshóparnir hafa ekki myndað sameiginleg markmið í starfi.
Læknar gefa of lítið færi á samstarfi og samskiptum að mati hjúkrunarfræðinga.
Samþætting starfs stoðdeilda á sjúkradeild er lítil.

Í rýnihóp (focus group) ræddu þátttakendur þessi atriði og urðu tvö síðari málefnin umfangsmest. Fram kom að þetta hafi víðtæk áhrif á deildarstarfið. Seinni viðtöl leiddu m.a. í ljós að þátttakendur höfðu áttað sig betur á viðhorfum og hagsmunum samstarfsfólks síns og hafði það þegar haft áhrif á skipulagsþætti starfsins.

Umræður: Þeir þættir samvinnu og samskipta sem fjallað var um lýsa allir ófullnægjandi samþættingu starfshópa á sjúkradeild. Umræða þátttakenda um ólíkar væntingar lækna og hjúkrunarfræðinga til samstarfs sýndi að aukin samvinna og samskipti eru nauðsynleg til að koma í veg fyrir árekstra og hindranir í starfi. Þrátt fyrir akademíska menntun hjúkrunarfræðinga hér á landi virðast ólík viðhorf og hagsmunir stéttanna tveggja hafa afgerandi áhrif á samstarf þeirra. Þó er gagnkvæm virðing fyrir störfum beggja til staðar.