RIKK tekur upp nýtt heiti

Heiti Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) hefur verið breytt í RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Skammstöfunin RIKK hefur áunnið sér sess í jafnréttisstarfi á Íslandi og verður því að nafni stofnunarinnar þrátt fyrir breyttan undirtitil. Nafnbreytingin endurspeglar nýjar áherslur í jafnréttisrannsóknum og jafnréttisstarfi hérlendis og erlendis, en fræðimenn beina nú sjónum sínum í auknum mæli að valdakerfinu og samfélaginu í heild og þeirri margþættu mismunun sem einstaklingar innan þess verða fyrir. Í stað þess að greina undirskipun einstakra samfélagshópa er litið til margbreytileika samfélagsins og þess flókna valdamynsturs sem sprettur af þáttum eins og kynferði, stétt, fötlun, uppruna, litarhætti, kynhneigð, aldri, kynvitund og trú. Nýtt heiti stofnunarinnar á ensku verður: RIKK – Institute for Gender, Equality and Difference. Nýtt nafn stofnunarinnar endurspeglar markmið stofnunarinnar sem felst í því að flétta saman hefðbundnar kvenna- og kynjarannsóknir og rannsóknir á jafnrétti í víðari skilningi með áherslu á jafnræði, mismun, menningarlega fjölbreytni og samtvinnun.

RIKK hefur frá upphafi verið leiðandi afl í þverfaglegum jafnréttisrannsóknum á Íslandi, en jafnframt hluti af lifandi fræðasamfélagi. Árið 2000 var nafni stofnunarinnar breytt úr Rannsóknastofu í kvennafræðum (RIK) í Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) vegna breyttrar áherslu í fræðunum. Áhersla á jafnrétti í víðum skilningi hefur skipað sífellt stærri sess í starfsemi RIKK síðastliðin ár líkt og hjá sambærilegum stofnunum innan háskólaumhverfis og stjórnsýslu sem fást við jafnréttismál og aðgerðir gegn mismunun, en sem dæmi má nefna að hin Norðurlöndin hafa þegar samþætt allar aðgerðir gegn mismunun á vegum hins opinbera og íslenska velferðarráðuneytið undirbýr nú frumvörp í svipuðum anda, sem miða að jafnri þátttöku og jafnri meðferð í samfélaginu.