Yfirstandandi verkefni

Reynsla kvenna af fíknimeðferð

Markmið rannsóknarinnar er að skoða reynslu kvenna af vímuefnameðferð hér á landi með tilliti til líðanar og öryggis í meðferð, árangurs meðferðarinnar og úrræða í boði. Undirmarkmið er að skoða sögu kvennanna með sérstöku tilliti til erfiðra upplifana í æsku og hvort að þær eigi sögu um ofbeldi í nánum samböndum.
Meðferð við vímuefnafíkn á Íslandi hefur að miklu leyti byggst á hugmyndafræði 12 spora samtaka hingað til, ef meðferð á Landspítala er undanskilin. Þar er hugræn athyglismeðferð grundvöllur meðferðarinnar. Þó að nokkrar breytingar hafi verið á áherslum meðferðarinnar á undangengnum árum og kynjasjónarmið séu nú tekin til skoðunar í meðferðinni er engin meðferð í boði fyrir konur eingöngu þar sem byggt er á nýjustu þekkingu um kynjamiðaða meðferð og lengst af hefur skort á þekkingu á sértækum vanda kvenna með fíknivanda og aðferðum við að taka á þeim vanda. Þetta er ekki séríslenskt vandamál en eins og kemur fram hjá Salter og Beckenridge (2014) virðist sem sú þekking sem til er á kynjamiðaðri meðferð ekki vera nýtt í meðferðarstarfi og því einkennist mikið af meðferðarframboði af kynjablindu. Rannsóknin horfir því til þeirrar þekkingar sem til er um kynjamiðaða og áfallameðvitaða meðferð og upplifun þjónustuþega í meðferð.

Sjá nánar hér.

 

Úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt

Tilgangur þessa fyrsta áfanga úttektar á stöðu kvenna í sauðfjárrækt er að skoða hvort að þar halli á konur og ef svo er, skoða leiðir til úrbóta. Um er að ræða svokallaða gloppugreiningu þar sem leitast er við að kortleggja hvaða upplýsingar vantar til að fá fyllri mynd af stöðu kvenna í greininni.

Í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á stöðu kynjanna í landbúnaði má segja að þær beri allar að sama brunni. Karlar eru skráðir fyrir eignum, réttindum, fá beingreiðslur í meira mæli og afla sér meiri lífeyrirsréttar. Þá koma fram vísbendingar um að vinna kvenna í sveitum sé, óskráð, ólaunuð og ósýnileg í opinberum gögnum. Þá er aðgengi kvenna að styrkjum og lánsfé innan greinarinnar verra en karla. Þá er lítill hluti kvenna virkur í félagsstörfum tengdum landbúnaði, bæði vegna mikils vinnuálags og að þær telja ekki á sig hlustað innan félagasamtakanna. Almennt kvarta konur yfir mjög karllægum viðhorfum innan félagasamtaka bænda. Sjá nánar hér.

 

Netverkið Gendering Asia

Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðumfræðum er, ásamt EDDU – öndvegissetri, aðili að norræna netverkinu Gendering Asia. Markmið netverksins er að efla rannsóknir á mótum asískra fræða og kynjafræða innan félags- og hugvísinda á Norðurlöndunum, með ráðstefnuhaldi, útgáfu og fundum fræðimanna á sviðinu. Sjá nánar hér.