Útgefnar bækur

Fléttur IV – Margar myndir ömmu

Bókin er tileinkuð ömmum og langömmum, sagðar eru sögur kvenna sem lifðu þann tíma þegar nútíminn hóf innreið sína á Íslandi. Fræðimenn af ólíkum sviðum, s.s. sagnfræði, guðfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og bókmenntafræði, setja lífshlaup formæðra sinna í samhengi við samfélagsgerðina sem, hvað sem borgaralegum réttindum leið, takmarkaði möguleika þeirra til þátttöku í opinberu lífi og um leið til sjálfstæðis og frelsis. Jafnframt er þáttur þeirra í að endurmóta ríkjandi hugmyndir um kvenleikann og samfélagslegt hlutverk sitt metinn og spurt hvaða tækifæri konur höfðu til þess að hafa áhrif í samfélaginu, bæði með starfi sínu inn á við, í þágu heimilis, en ekki síður út á við, til dæmis í gegnum félagasamtök og kvenfélög sem voru í hverri sveit. Greinarnar draga upp fjölbreyttar myndir af lífi kvenna á Íslandi um aldamótin 1900 og fram á miðja 20. öld með því að tefla saman kenningarlegri nálgun og persónulegri frásögn. Sjá nánar hér.

Fléttur III – Jafnrétti, menning, samfélag

Viðfangsefni bókarinnar eru birtingarmyndir misréttis í samfélagi og menningu og áhrif þess á aðstæður karla og kvenna. Má þar nefna átök femínista af ólíkum skólum á Íslandi, misnotkun valds og andóf í kristinni trúarhefð og stöðu kvenna í bókmenntum og kvikmyndum. Í bókinni er sjónum jafnframt beint að samtvinnun ólíkra þátta mismununar, skörun fötlunar og kyngervis, og íslenskri friðargæslu í ljósi femínískra öryggisfræða. Einnig er rætt um þær afleiðingar sem ofríki karllægrar hugmyndafræði hafði í fjármálakreppunni árið 2008 og í umræðunni um loftslagsbreytingar. Sjá nánar hér.

Á rauðum sokkum: baráttukonur segja frá

Í bókinni segja tólf konur frá starfi sínu með Rauðsokkahreyfingunni fyrstu ár hennar, en haustið 2010 voru liðin 40 ár frá eiginlegum stofnfundi hennar árið 1970. Hver kona ritar sinn kafla og jafnframt leggur einn af frumkvöðlum hreyfingarinnar, skáldið Vilborg Dagbjartsdóttir, bókinni til tólf ljóð sem flest voru ort á áttunda áratugnum og eiga ríkan samhljóm með umfjöllunarefni frásagnanna. Bókin er gefin út í samstarfi við Háskólaútgáfuna. Sjá nánar hér.

Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903

Í bókinni fjallar Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur um mótun kyngervis kvenna á Íslandi á síðari hluta 19. aldar. Til grundvallar liggur umræða sem hófst í landsmálablöðunum árið 1870 um hvaða menntun hæfði konum og hinu svokallaða kvenlega eðli. Sjá nánar hér.

 

Fléttur II – Kynjafræði – kortlagningar
Rit Rannsóknastofu í kvennafræðum

Bókin Kynjafræði – kortlagningar er safn greina sem m.a. byggja á erindum sem flutt voru á ráðstefnu Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum haustið 2002. Greinarnar, 24 að tölu, endurspegla þá miklu breidd sem er í kynjarannsóknum hér á landi, í öllum greinum og á öllum fræðasviðum. Sjá nánar hér.

 

Karlmennska og jafnréttisuppeldi

Höfundur bókarinnar er Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor við Háskólann á Akureyri. Í bókinni skoðar Ingólfur stöðu drengja í skólum en undanfarin misseri hefur þeirri skoðun vaxið fiskur um hrygg að drengir eigi þar undir högg að sækja. Ingólfur ræðir um goðsagnir og veruleika sem endurspeglast sitt á hvað í þessum umræðum. Sjá nánar hér.

 

Kosningaréttur kvenna 90 ára

Bókin Kosningaréttur kvenna 90 ára geymir ávörp þau og erindi sem flutt voru á málþingi vorið 2005 í tilefni af 90 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Sjá nánar hér.

 

Speglanir

Greinasafn eftir Helgu Kress prófessor í bókmenntafræði. Speglanir eru safn fjórtán greina um konur í íslenskum bókmenntum nítjándu ot tuttugustu aldar andspænis bókmenntastofnun og bókmenntahefð. Útgefandi er Rannsóknastofa í kvennafræðum.

 

Simone de Beauvoir. Heimspekingur, rithöfundur, femínisti

Ráðstefnurit. Ritstjórar eru Irma Erlingsdóttir forstöðumaður Rannsóknastofu í kvennafræðum og Sigríður Þorgeirsdóttir dósent í heimspeki.

 

Fléttur I
Rit Rannsóknastofu í kvennafræðum

Ritstjórar eru Ragnhildur Richter og Þórunn Sigurðardóttir. Útgefendur eru Rannsóknastofa í kvennafræðum og Háskólaútgáfan. Í ritinu eru 7 greinar sem skrifaðar eru frá kvennafræðilegu sjónarhorni um hin ýmsu fræðasvið.

 

Fyrir dyrum fóstru

Greinar um konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum eftir Helgu Kress. Útgefandi er Rannsóknastofa í kvennafræðum, 1996. Bókin hefur að geyma sjö greinar um íslenskar fornbókmenntir frá árunum 1977-1996 og fjalla þær allar á einhvern hátt um samband kynferðis, karlveldis og karnivals í þessum bókmenntum.

 

Íslenskar kvennarannsóknir 1970-1997. Gagnagrunnur I

Ritstjóri er Helga Kress. Útgefandi er Rannsóknastofa í kvennafræðum, 1997. Þetta er skrá yfir um 200 rit og greinar sem skrifaðar hafa verið í sagnfræði frá kvennafræðilegu sjónarhorni, ásamt útdráttum á íslensku og ensku.

 

Íslenskar kvennarannsóknir

Erindi flutt á ráðstefnu í október 1995. Ritstjórar eru Helga Kress og Rannveig Traustadóttir. Útgefandi er Rannsóknastofa í kvennafræðum, 1997. Þetta er safn rúmlega 30 erinda sem haldin voru á ráðstefnu um íslenskar kvennarannsóknir í október 1995 á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum.