Staða kvenna í sauðfjárrækt

Landssamtök sauðfjárbænda hafa hafið vinnu við úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt og er fyrsta áfanga úttektarinnar nú lokið. Tilgangurinn er að skoða hvort halli á konur innan greinarinnar og ef svo er, skoða leiðir til úrbóta. Nokkur verkefni hafa verið sett á laggirnar til að bæta stöðu kvenna í landbúnaði undanfarin ár, s.s. jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands og verkefnin Byggjum brýr, Fósturlandsins freyjur og lifandi landbúnaður. Þessi verkefni hafa náð ágætum árangri en ráðast þó ekki að rótum vandans.

Segja má að niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á stöðu kynjanna í landbúnaði beri allar að sama brunni. Rétt og sanngjörn skráning eigna er mjög mikilvægur þáttur þegar kemur að jafnrétti kynjanna en enn hefur ekki verið framkvæmd ítarleg úttekt á eignaréttarstöðu kynjanna í landbúnaði hér á landi. Þó liggur fyrir að karlar eru fremur skráðir fyrir eignum, réttindum, fá beingreiðslur í meira mæli og afla sér meiri lífeyrirsréttar. Jafnframt er aðgengi kvenna að styrkjum og lánsfé innan greinarinnar verra en karla. Þá koma fram vísbendingar um að vinna kvenna í sveitum sé óskráð, ólaunuð og ósýnileg í opinberum gögnum. Lítill hluti kvenna er virkur í félagsstörfum tengdum landbúnaði, bæði vegna mikils vinnuálags og vegna þess að þær telja að rödd sín heyrist ekki innan félagasamtakanna.

Í niðurstöðum þessa fyrsta áfanga úttektar á stöðu kvenna í sauðfjárrækt er lagt til að skráning á kyngreindum upplýsingum um einstaklinga sem starfa í landbúnaði verði bætt og að kynjasamþætting verði innleidd á markvissan máta innan landbúnaðarkerfisins, til dæmis hjá Bændasamtökunum, Búnaðarfélögum og í málefnum landbúnaðarins innan atvinnuvega- og ráðuneytis. Markmiðið er að tryggja að jafnréttissjónarmið komi til skoðunar á öllum stigum stefnumótunar og framkvæmdar. Þá er bent á að mikilvægt skref í átt til aukins jafnréttis sé að aðildarfélög Landssamtaka sauðfjárbænda gæti að kynjasjónarmiðum við kosningu í stjórnir og önnur trúnaðarstörf. Enn fremur er lögð áhersla á að mikilvægt er að styrkja tengslanet kvenna í landbúnaði og loks er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hvatt til að endurskoða reglur um skráningu búa og eigna í landbúnaði með það að markmiði að tryggja rétt kvenna.

Mikill vilji er meðal forystufólks íslenskra sauðfjárbænda til að jafna hlut karla og kvenna innan greinarinnar og er þessi fyrsti áfangi úttektarinnar því til vitnis. Bætt staða kvenna í sauðfjárrækt er ekki einungis réttlætismál, heldur stuðlar einnig að nýliðun innan greinarinnar og aukinni nýsköpun sem mikilvægt er að hlúa að til framtíðar. Í næstu áföngum úttektarinnar verður staða kvenna innan sauðfjárræktar rýnd frá ólíkum sjónarhornum og markvissar tillögur til úrbóta settar fram. Þegar meginniðurstöður liggja fyrir er fyrirhugað að halda opna samráðsfundi með konum í sauðfjárrækt í heimabyggð þeirra þar sem ólíkar leiðir til úrbóta eru skoðaðar.

Fyrsta áfanga úttektarinnar var skilað í febrúar 2016. Sjá hér.