Rannsakandi óskast

HI_logoRIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands auglýsir eftir rannsakanda á doktors- eða meistarastigi. Rannsakandinn mun verða hluti af þverfaglegu rannsóknarteymi RIKK um heimilisofbeldi á Íslandi og mun starfa að tveimur aðskildum rannsóknarverkefnum. Áætlað er að vinna við verkefnið hefjist í byrjun mars og vari í fjóra mánuði. Hlutastarf kemur til greina en einnig framlenging á starfstíma. Rannsakandanum er ætlað að sinna almennri rannsóknarvinnu sem felur í sér vettvangsvinnu, gagnagreiningar, skýrsluskrif, ritun og kóðun viðtala. Leitað er eftir einstaklingi með reynslu af eigindlegum og blönduðum rannsóknaraðferðum félagsvísinda og góða íslenskukunnáttu. Kostur er ef viðkomandi hefur reynslu af gagnagreiningum í Atlas.ti, en þó er það ekki skilyrði. Umsækjendur skulu hið minnsta vera langt komnir í meistaranámi á sviði tengdu rannsóknarefninu. Starfið hentar umsækjendum af báðum kynjum.Umsóknir skulu sendar sem eitt pdf skjal á netfangið rikk@hi.is. Umsóknarfrestur er til og með 20. febrúar 2016. Umsókn skal fylgja (1) greinargerð á íslensku (hámark 1000 orð) um reynslu umsækjanda af rannsóknum almennt og þekkingu á ofbeldismálum sérstaklega, (2) vottorð um námsferil, og (3) ferilsskrá með yfirliti yfir starfsreynslu, útgefin rit (ef við á) og nöfnum tveggja umsagnaraðila. Nánari upplýsingar veitir Kristín I. Pálsdóttir, verkefnisstjóri RIKK (sími: 525-4595; netfang: kip@hi.is).
Sjá nánar um rannsóknina hér.