Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903

Í bókinni fjallar Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur um mótun kyngervis kvenna á Íslandi á síðari hluta 19. aldar. Til grundvallar liggur umræða sem hófst í landsmálablöðunum árið 1870 um hvaða menntun hæfði konum og hinu svokallaða kvenlega eðli. Þótt umræðan hafi á yfirborðinu snúist um viðeigandi menntun kvenna þá snérist hún í raun um samfélagslegt hlutverk þeirra. Auk hinnar opinberu umræðu er byggt á upplifun kvenna eins og hún birtist í sendibréfum þar sem fram kemur togstreita milli ríkjandi hugmynda um hlutverk kvenna og löngunar þeirra til þess að stíga út fyrir ‘sitt gólf’.

Bókin er doktorsverkefni Erlu Huldu Halldórsdóttur við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hún er gefin út í samstarfi Sagnfræðistofnunar, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og Háskólaútgáfunnar.