Hannúð, þöggun og berskjöldun

„Í kjölfar #MeToo“ er yfirskrift viðburðaraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum og Jafnréttisskólans (GEST) vorið 2021 þar sem tveir sérfræðingar ræða saman um viðfangsefnið. #MeToo og sá árangur sem hreyfingin hefur náð er til umfjöllunar og sjónum einnig beint að því sem er óunnið í baráttunni gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti.  

Í sjöunda, og jafnframt síðasta, viðburði raðarinnar sem haldinn er rafrænt 20. maí kl. 12:00 ræða Nanna Hlín Halldórsdóttir og Eyja Margrét Brynjarsdóttir saman um hannúð, þöggun og berskjöldun. Nanna Hlín Halldórsdóttir er nýdoktor í heimspeki við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar eru á sviði femínískrar heimspeki, gagnrýnna fræða og læknahugvísinda. Hún hefur rannsakað hugmyndir sem snúa að valdi, jafnrétti, berskjöldun og nú síðast þreytu. Eyja Margrét Brynjarsdóttir er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar eru mest á sviði félagslegrar heimspeki, einkum félagslegrar frumspeki og þekkingarfræði, femínískrar heimspeki og hagnýtrar siðfræði. 

Eins og flest hafa tekið eftir hefur ný bylgja í anda MeToo hafið innreið sína á Íslandi á síðustu vikum. Rætt verður hvernig hún hefur sprottið upp sem andóf við gerendameðvirkni og hannúð (e. himpathy) og þær aðferðir sem notaðar hafa verið til að hindra þolendur í að benda á gerendur í kynbundnu ofbeldi. Einnig verður rætt um mismunandi hliðar á berskjöldun, eins og kröfuna um að þolendur rifji upp og afhjúpi afar erfiðar minningar úr lífi sínu til að vera trúað og hvernig þeir sem eru í forréttindastöðu geta stundum notað berskjöldun á réttum augnablikum sjálfum sér til framdráttar. Hvað ávannst með MeToo fyrir nokkrum árum og hvað þarf enn að bæta? Hvernig breytum við gildunum sem ræktuð eru í samfélaginu þannig að hægt sé að uppræta þessa slæmu hlið menningar okkkar?

Viðburðaröðin byggir á tveimur bókum sem RIKK hefur nýlega staðið að útgáfu á, annars vegar fimmta heftið í ritröð RIKK, Fléttur V. #MeToo, og hins vegar handbók um hreyfinguna, The Routledge Handbook of the Politics of the #MeToo Movement, sem er gefin út af Routlegde-útgáfunni í Bretlandi.  

Viðburðirnir verða rafrænir og fara fram á netfundarforritinu Zoom: https://eu01web.zoom.us/j/61583256298. Upptökur verða gerðar aðgengilegar á heimasíðu RIKK, Facebook-síðu RIKK og Youtube-rás Hugvísindasviðs að viðburðum loknum.