SúsannaMargrétRIKK mun í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna á Íslandi standa að hádegisfyrirlestraröð á vormisseri 2015 sem helguð er ömmum. Einnig er fyrirhugað að gefa út greinasafn að henni lokinni í ritröðinni Fléttur í samstarfi við Háskólaútgáfuna.

Dagskrána má nálgast hér. Einnig má hér hlusta á viðtal Lísu Pálsdóttur við Irmu Erlingsdóttur og Erlu Huldu Halldórsdóttur í Samfélaginu á Rás 1 hinn 16. janúar.

Markmiðið með fyrirlestraröðinni er að segja sögur kvenna sem lifðu þann tíma þegar nútíminn hóf innreið sína á Íslandi, í lok 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar, og varpa ljósi á framlag þeirra, stöðu og aðstæður. Tuttugasta öldin var öld baráttu fyrir borgaralegum réttindum, þar á meðal kvenréttindum en fyrsta bylgja femínisma skilaði atkvæðarétti til kvenna víða um heim á fyrstu áratugum 20. aldar.

Í fyrirlestraröðinni er ætlunin að fjalla um sögu, hugmyndaheim og aðstæður þessara kvenna og setja efnið í kenningalegt en jafnframt persónulegt samhengi. Fræðimenn úr ýmsum greinum tengja rannsóknarefni sín við ömmur/langömmur sínar og/eða konur sem tengdust þeim með einum eða öðrum hætti. Hugmyndin er að umfjöllunin nái yfir sem breiðastan hóp og að fjallað verði um konur með ólíka búsetu, menntun og menntunarmöguleika, af ólíkri stétt; þekktar sem óþekk(t)ar.

Fræðimennirnir munu meðal annars velta fyrir sér hvaða áhrif aukin réttindi höfðu á líf formæðra okkar og með hvaða hætti þær hafi tekið þátt í mótun nýs samfélags á síðustu árum nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu. Ekki er aðeins átt við réttindi eins og kosningarétt og kjörgengi heldur einnig rétt til menntunar og embætta og þau áhrif sem slík útvíkkun á starfssviði kvenna hafði á samfélagið allt. Því má spyrja hvernig amma/langamma iðkaði hin nýfengnu réttindi heima fyrir og í uppeldi/áhrifum á börn sín og barnabörn. Hvaða hugmyndir höfum við sem nú lifum um formæður okkar og við hvað miðast þær hugmyndir? Eru ömmur og langömmur, sem sumar voru jafnvel fæddar á 19. öld, í huga okkar birtingarmynd gamalla tíma og kyrrstæðs samfélags – þar sem konur voru í peysufötum með skotthúfur? Eða var amma kannski með lokka í hári og dansaði Charleston á „glaða áratugnum“? Hvaða kona er það sem horfir svo kankvís undan hattbarði á mynd frá stríðsárunum?

Í þessari nálgun felst áskorun því spyrja þarf hvernig við skrifum um einhvern svo nákominn okkur. Hvernig er hægt að halda akademískri fjarlægð við viðfangsefni sem er amma, jafnvel þótt það sé amma sem við kannski þekktum aldrei? Hvernig leysum við þau vandamál sem upp geta komið í tengslum við heimildir og túlkun? Hvað ef aðrir ættingjar verða ósáttir við útkomuna, sérstaklega ef óþægilegum fjölskylduleyndarmálum er ljóstrað upp?

Í íslenskri alþýðlegri sagnritun var því oft haldið á lofti að konur, mæður og ömmur, hefðu verið merkisberar tungumáls og menningar, næstum heilagar konur og sívinnandi. Þessi hugmynd er til dæmis áberandi í ritröðinni Móðir mín, en fyrsta bókin í þeim flokki kom út árið 1949. Þar eru ýmsar áhugaverðar frásagnir þar sem upphafning kvenlegra dyggða er rauði þráðurinn. Gildir þá einu í hvaða stétt þessar konur voru, allar létu þær börn sín og fjölskyldu ganga fyrir. Þessar frásagnir segja okkur meira um það til hvers var ætlast af konum á þessum tíma en hvernig þær voru í raun.

Áhugavert er að spyrja: Hvað með annars konar sögur? Hvað með þær sem vildu fara aðrar leiðir og brutu gegn hefðbundnum gildum? Slíkar sögur eru til í fjölskyldum og slíkar sögur eru til frá fyrri öldum þar sem sumar konur dreymdi um annars konar líf en kynferði þeirra og félagsleg staða bauð.

Ævisöguleg nálgun sem þessi gefur færi á að skoða fortíðina og sögulega þróun í persónulegu ljósi sem þó mun falla undir það sem kallast sameiginleg ævisaga og er að ýmsra mati ein áhugaverðasta og gjöfulasta leið ævisögulegra rannsókna.

Innblásturinn að þemanu er m.a. fenginn úr bók Helgu Kress Máttugum meyjum þar sem hún fjallar um uppruna og kenningar um merkingu orðsins ‚edda‘. Helga bendir á að orðið merki langamma og að merkinguna sé auðvelt að tengja orðunum óður (skáldskapur) og æði (innblástur). Þá segir hún að í „norrænni goðafræði tilheyra skáldskapur og æði sama sviði, en það má t.a.m. greinilega sjá í lýsingum á seið. Þannig felur nafnið edda í sér þættina æði, innblástur, skáldskap, konu og gamalt.“ Helga bendir á að „gamlar konur hafi verið kallaðar „eddur“, einmitt vegna þess að þær ortu og kváðu „óði“. Þær voru sem sagt ekki aðeins „varðveitendur“ skáldskapar heldur virkar í sköpun hans.“

Það er von RIKK að fyrirlestrarnir dragi upp fjölbreyttar myndir af lífi kvenna á Íslandi um aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar með því að tefla saman á nýjan og spennandi hátt kenningarlegri nálgun og persónulegri frásögn með skírskotun til samtímans og þeirrar sýnar sem einkennir hann, hvort sem um er að ræða hugmyndir okkar um það sem var, það sem er eða það sem kunni að verða.

Fyrirlestrarnir verða gefnir út á bók í röðinni Fléttur á vegum RIKK og Háskólaútgáfunnar í ritstjórn Sólveigar Önnu Bóasdóttur en jafnframt verður skipuð ritnefnd þegar nær dregur. Bókinni verður ritstýrt og hún ritrýnd samkvæmt reglum Háskólaútgáfunnar: http://haskolautgafan.hi.is/ritryni.

Fyrirlesarar:

Annadís G. Rúdólfsdóttir, lektor í aðferðafræði rannsókna við HÍ;

Ármann Jakobsson, prófessor í bókmenntum fyrri alda við HÍ;

Berglind Rós Magnúsdóttir, lektor í menntunarfræðum við HÍ;

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum við HÍ;

Erla Hulda Halldórsdóttir, nýdoktor í sagnfræði við HÍ;

Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við HÍ;

Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði við HÍ;

Helga Kress, prófessor emeritus í almennri bókmenntafræði við HÍ;

Ingibjörg Sigurðardóttir, adjúnkt við kennaradeild HA;

Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður og dósent í frönskum samtímabókmenntum við HÍ;

Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur og forstöðukona Jafnréttisstofu;

Kristín Svava Tómasdóttir, sagnfræðingur og ljóðskáld;

Sigrún Alba Sigurðardóttir, lektor við LHI og doktorsnemi við HÍ;

Silja Bára Ómarsdóttir, adjúnkt við Stjórnmálafræðideild HÍ:

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við HÍ;

Súsanna Margrét Gestsdóttir, adjúnkt á Menntavísindasviði HÍ.

Fyrirlestrar verða sem hér segir:

Janúar: 16., 23. og 30.

Febrúar: 6., 13., 20. og 27.

Mars: 6., 13., 20. og 27.

Apríl: 10. og 17.

Maí: 8.

Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og styrkt af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna 2015.