Mansal – Líka á Íslandi

Skýrslan var unnin við Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum fyrir Rauða kross Íslands árið 2009. Höfundur skýrslunnar Líka á Íslandi: Rannsókn á eðli og umfangi mansals er Fríða Rós Valdimarsdóttir. Ritstjóri er Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK. Hér má einnig sjá samantekt á ensku.

Á alþjóðaráðstefnu Rauða krossins í Genf, í nóvembermánuði 2007, tilkynnti Íslandsdeild hreyfingarinnar þá ætlun sína að rannsaka og meta aðstæður hugsanlegra fórnarlamba mansals á Íslandi. Rannsókninni lauk nú snemmsumars en í framhaldi af henni er gert ráð fyrir því að Rauði krossinn á Íslandi þrói aðgerðaráætlun byggða á niðurstöðunum, svo unnt verði að veita meintum fórnarlömbum mansals viðeigandi þjónustu, vernd og stuðning. Rauði kross Íslands leitaði til Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) og óskaði eftir samstarfi um verkefnið.

Eftir að helstu áherslur verkefnisins höfðu verið skilgreindar, var Fríðu Rós Valdimarsdóttur manfræðingi, falin verkefnisstjórn og sá hún um framkvæmd rannsóknarinnar og ritun þessarar skýrslu. Henni til ráðgjafar og stuðnings var bakhópur valinn í sameiningu af RIKK og Rauða krossi Íslands. Í honum sátu þau Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, Helga G. Halldórsdóttir, sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða kross Íslands, Hildigunnur Ólafsdóttir, afbrotafræðingur, Irma Erlingsdóttir forstöðumaður Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, og Margrét Steinarsdóttir, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.

Rannsóknin felst í því að kanna eðli og umfang mansals á Íslandi. Í ljósi þess að upplýsingar eru af skornum skammti hér á landi er um grunnrannsókn að ræða. Rannsóknin byggist á viðtölum við fulltrúa opinberra stofnana, ráðgjafa, lögfræðinga og starfsfólk ýmissa félaga.