Mannréttindabarátta hinsegin fólks í Úganda

Kasha Jacqueline NabagesaraMiðvikudaginn 24. apríl flytur lögfræðingurinn og aðgerðasinninn Kasha Jacqueline Nabagesera fyrirlestur um mannréttindabaráttu hinsegin fólks í Úganda. Fyrirlesturinn fer fram á ensku í Öskju, stofu 132, kl. 12:00–13:00.

Nabagesera er stofnandi og framkvæmdastjóri baráttusamtaka hinsegin fólks í Úganda , en þar er samkynhneigð bönnuð með lögum. Þrátt fyrir ofsóknir og morðhótanir hefur hún ferðast vítt og breitt um heiminn til að fjalla um stöðu hinsegin fólks í löndum þar sem réttindum þeirra er ógnað. Nabagesera mun síðar á þessu ári veita alþjóðlegu Nürnberg  -mannréttindaverðlaununum viðtöku en árið 2011, vann hún til Martin Ennal-verðlaunanna fyrir starf sitt í þágu mannréttinda. Hún er fyrsta baráttukonan fyrir réttindum samkynhneigðra til að hljóta þessi verðlaun.

Í tengslum við heimsókn Nabagesera verður heimildamyndin Call me Kuchu sýnd í Bíó Paradís hinn 23. apríl, kl. 20:00.  Myndin fjallar m.a. um David Kato sem var baráttufélagi Nabagesera. Hann var myrtur árið 2011 eftir að dagblað í Úganda birti nafn hans, Nabagesera og fleiri einstaklinga sem staðfest var að væru samkynhneigðir undir fyrirsögninni „Hengjum þau“! Nabagesera mun svara spurningum gesta úr sal eftir sýningu myndarinnar.

Að fyrirlestrinum og sýningu myndarinnar standa Íslandsdeild Amnesty International, Samtökin 78, Hinsegin dagar, Alþjóðlegi jafnréttisskólinn og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um fyrirlesturinn og heimildamyndina, má nálgast á heimasíðu Amnesty: http://www.amnesty.is