Málstofa XVI – Líkami og líðan kvenna

Anna Sigríður Ólafsdóttir: Næring og lífshættir kvenna – áhrif á heilbrigði komandi kynslóða

Máltækið segir lengi býr að fyrstu gerð. Það má kalla orð með sönnu þegar næring og lífshættir kvenna á barneignaaldri eru annars vegar. Lífshættir kvenna eru afgerandi áhrifaþættir þegar kemur að þeirra eigin heilbrigði og heilbrigði barna þeirra. Mataræði á Íslandi hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum, til dæmis hefur fiskneysla minnkað mikið og tiltölulega fáar konur taka lýsi reglulega. Fæðingarþyngd Íslendinga er með því hæsta sem gerist í heiminum og má meðal annars rekja það til lýsisneyslu. Svo framarlega sem móðirin er heilbrigð og þyngdaraukning á meðgöngu er innan eðlilegra marka er aukin fæðingarstærð barna talin tengd betri heilsu barnanna síðar á lífsleiðinni. Á hinn bóginn getur of mikil eða ónóg þyngdaraukning móður á meðgöngunni haft neikvæð áhrif á heilsu bæði móður og barns. Fleiri þættir eins og holdafar, ástundun hreyfingar, reykingavenjur, brjóstagjöf ásamt fæðuvenjum og lífsstíl á heimilinu geta haft afgerandi áhrif á holdafar og heilsu kvenna og afkomenda þeirra. Í fyrirlestrinum verður litið yfir næringu og lífshætti ungra stúlkna í dag og hversu þungt lífshættir geta vegið heilsu- og holdafari komandi kynslóða.

Erla Dóris Halldórsdóttir: Orðræða um mjaðmagrind kvenna

Oft er því fleygt fram að sumar konur eigi auðveldara með að fæða en aðrar og er verið að vísa til mjaðmagrindar konunnar. Orðræðan um mjaðmagrind kvenna eins og hún birtist hér á landi í kennslubókum fyrir ljósmæður og í læknabókum á 19. öld og í byrjun 20. aldar verður viðfangsefni þessa fyrirlesturs. Einnig verður fjallað um helstu gerðir mjaðmagrinda og hvaða gerð er talin heppilegust fyrir konur samkvæmt skilgreiningu læknavísinda.

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir: Kynverund kvenna; þeirra eigin raddir og sjónarmið. Nokkrar rannsóknarniðurstöður

Kynverund kvenna (women’s sexuality) líður enn, á okkar tímum, fyrir einhæfar birtingarmyndir af kynverund kvenna (því sama má reyndar halda fram um kynverund karla en það væri efni í annað erindi). Þegar fjallað er um kynverund kvenna í opinberu rými á Íslandi er og hefur það oftast verið í tengslum við kynferðislega misnotkun eða kynferðislegt ójafnræði og niðurlægingu s.s. þegar fjallað er um svonefnda klámvæðingu. Það er ljóst að mýtan um móðurímyndina (madonnan) og hóruna (whore) lifir enn góðu lífi og fitnar sældarlega eins og púkinn á fjósbitanum: ekki finnast konur sem sjálfsstæðar kynverur með eðlilegar kynferðislegar langanir og óskir heldur birtast þær okkur sem annað hvort alltumvefjandi, verndandi mæður eða sem fallnar, syndugar konur. Og ef madonnu-hóru ímyndin er ekki á sveimi þá er það staðreyndin um hið saklausa fórnarlamb sem hin þriðja birtingarmynd af kynverund kvenna. Það er mat undirritaðrar, sem hefur sinnt fræðslu og ráðgjöf í kynfræði (sexology) um árabil hérlendis, að ójafnvægi hafi myndast, sérstaklega á opinverum vettvangi, í bæði fræðslu og umfjöllun um hvað einkenni heilbrigða kynverund kvenna. Þetta ójafnvægi getur m.a. ýtt undir þá tilhneigingu að annars heilbrigðar tilfinningar svo sem ástríða eða kynlöngun eru túlkaðar sem “káf” í annars heilbrigðum samböndum. Það er mikilvægt að kvenþjóðin, og reyndar þjóðin öll, velti fyrir sér jákvæðum hliðum kynverundar kvenna og þekki sjónarmið kvennanna í þeim efnum. Í þessu erindi verður áherslan lögð á að kynna nokkrar niðurstöður erlendra rannsókna þar sem viðfangsefnið er kynverund kvenna: þeirra eigin raddir og sjónarmið og hvað skiptir þær mestu máli í að upplifa jákvæða og eflandi kynverund.

Erlingur Brynjólfsson: Um kvenfólk og brennivín

Fyrirlesturinn fjallar um vöruna áfengi, viðhorf til hennar og hvernig hún endurspeglar átök í samfélaginu, átök milli kynjanna, áhrif áfengis á kynhlutverk og samskipti kynjanna í ljósi sögunnar. Einnig verður fjallað um áhrif bindindishreyfinga á líf kvenna um aldamótin 1900 og breytingar á réttindum kvenna í tengslum við áfengisnotkun.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Hallar á konur?

Hvort kynið býr við betra hlutskipti í lífinu? Kvenfrelsissinnar halda því fram, að konur séu kúgaður minnihlutahópur. Þeim sé kerfisbundið mismunað. En hagfræðingar benda á, að kostnaður af mismunun skiptist milli þeirra, sem mismuna, og hinna, sem mismunað er. Tölur um lífslíkur, sjálfsvíg, fangelsisvist, afbrot, fíkniefnaneyslu, ofdrykkju o. fl. sýna, að konur virðast una hlutskipti sínu betur en karlar, vera hamingjusamari. Þá vilja fleiri karlar láta breyta sér í konur en konur í karla. Karlar eiga ekki heldur kost á þeirri djúpu lífsreynslu, sem felst í að ala líf í kviði sér. Líf þeirra er erfiðara, áhættusamara og styttra. Launamunur kynjanna hverfur nánast, þegar leiðrétt hefur verið fyrir hjónabandi og starfsvali. Niðurstaðan er, að líklega geti kynin tvö verið jafnsæl eða vansæl með sitt hlutskipti. Á hvorugt kynið (eða bæði) hallar í lífinu.