Málstofa XIV – menntun og jafnrétti

Guðný Guðbjörnsdóttir: Staða kynjafræða: Rannsóknir á menntun og kynferði í 15 ár. Hvert stefnir?

Í bók minni Menntun, forysta og kynferði (2007) eru greinar sem ég hef ritað á rúmlega 15 árum og því má líta á hana sem greiningu á orðræðunni um menntun og kynferði frá 1990-2007. Í þessu erindi verður litið yfir hvernig helstu hugtök og kenningar hafa þróast á þessum tíma með tilvísun í mínar rannsóknir og annarra. Á sjöunda og áttunda áratugnum var hugtakið kynhlutverk það sem mestu máli skipti í rannsóknum á menntun og kynferði. Hefðbundnar kynímyndir sem byggðu annars vegar á hugmyndum um eðlishyggju og hins vegar á aðgreiningu í einkalíf og opinbert líf voru gagnrýndar og fram kom aðgreiningin á kyni og kyngervi og félagsleg sköpunarhyggja. Sú skoðun var sterk að greina þyrfti skólann sem stofnun karlveldisins m.a. þyrfti að endurskilgreina þekkinguna, námskrár og námsefni út frá kvennarannsóknum.

Í kring um 1990 komu fyrst fram áherslur í rannsóknum á menntun og kynferði í anda póststrúktúralisma, þar sem tvíhyggjan um konur og karla var afbyggð. Andstaða við tvíhyggjuna og áhersla á margbreytileika í samsömun (e. identities) og á hugverur (e. subjectivities) í orðræðum urðu smám saman ofan á, með áherslu á að afbyggja viðteknar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika og afhjúpa tengsl þeirra við valdahugtakið. Efnislega má greina þessar rannsóknir í þrjú meginsvið, sem greint verður frá. Þó að áherslur póststrúkturalismans á staðsetningu eða menningarlegt samhengi hafi verið kærkomin hefur hún um leið fært áherslur frá hefðbundnum jafnréttisspurningum um tengsl kynferðis eða stéttarstöðu við menntun, völd og áhrif eða spurningar um jafnrétti til náms. Áherslan á margbreytileika hvors kyns fyrir sig eftir aðstæðum og öðrum þáttum eins og kynþætti, stétt eða menningu var nauðsynleg og mikilvæg til að forðast klisjur og einfaldanir, en kostaði það að áhersla væri lögð á félagslega útilokun (exclusion) og félagslegt jafnrétti. Þetta eru hins vegar aftur orðin brýn vandamál fyrir menntastefnu á tímum hnattvæðingar og nýfrjálshyggju, þegar félagslegt misrétti vex. Við þessar aðstæður er mikilvægt að beita kenningum í félagsvísindum almennt í stað þess að skoða menntun og kynferði innan skólans í einangrun, með tilheyrandi einföldunum. Ekki gengur að skólaorðræðan sé afmörkuð og algjörlega á skjön við það sem gerist í fræðunum eða í fjölmiðlum eins og gerst hefur til dæmis með hina svokölluðu drengjaorðræðu.

Arna H. Jónsdóttir: Samspil framhaldsnáms og starfsframa kvenna og karla í háskóla: Væntingar og veruleiki

Kynnt verður rannsókn sem fyrirhuguð er á komandi hausti. Þeir sem að henni standa eru Arna H. Jónsdóttir, Steinunn Helga Lárusdóttir og Þórdís Þórðardóttir lektorar við Kennaraháskóla Íslands. Markmið rannsóknarinnar er þríþætt:
-Að afla þekkingar og dýpka skilning á samspili framhaldsnáms og starfsframa.
-Að stuðla að umræðu um áhrif menntunar á störf og starfsframa kynjanna.
-Að auka á þann hátt áhrif kvenna á ákvarðanir á háskólastigi á sviði rannsókna, stefnumótunar og nýsköpunar þekkingar.

Konum í háskólanámi hefur fjölgað umtalsvert á liðnum árum. Miklu skiptir að afla upplýsinga um það hverju sú menntun skilar konum og samfélaginu þegar á starfsvettvang er komið. Rannsakendur telja mikilvægt að varpa ljósi á þá þætti sem hvetji konur og karla til framhaldsnáms í Kennaraháskóla Íslands og fleiri háskólum. Í því skyni verður aflað upplýsinga um hvort og þá hvernig einstaklingar eru styrktir eða hvattir til framhaldsnáms, hvaða væntingar þeir hafi til m.a. framgangs, launahækkana og möguleika til áhrifa og hvort veruleikinn sé í samræmi við væntingar þegar á vettvang er komið. Áhersla verður lögð á að greina jafnt sameiginlega sem ólíka þætti í námsvali og starfsferli kynjanna. Kynjavíddin verður m.a. athuguð með vísan í eftirfarandi spurningar: Hvaða þættir í náms- og starfsvali og reynslu þátttakenda eru sameiginlegir körlum og konum? Hvaða þættir eru mismunandi/ ólíkir? Hvaða þættir eru sameiginlegir þátttakendum af ólíkum fræðasviðum og mismunandi háskólum? Rannsóknin verður afmörkuð við tvo háskóla sem ætla má að séu sóttir af ólíkum nemendahópum, Kennaraháskóla Íslands og einum viðskiptaháskóla. Sendur verður út spurningalisti árið 2007 til þeirra sem eru að ljúka framhaldsnámi og aftur til sama hóps árið 2009.

Gyða Margrét Pétursdóttir: Með rauða skikkju eða logandi ljós? Kyngervi innan hugbúnaðarfyrirtækja og fleiri skyld þemu

Vinnumarkaður á Íslandi er kynjaskiptur. Karlar og konur gegna ólíkum störfum og ólíkum stöðum innan fyrirtækja. Störf í upplýsingatækniiðnaði eru engin undantekning þar á. Fleiri karlar en konur starfa við hugbúnaðarþróun og hugbúnaðargerð á meðan nokkuð algengt er að konur starfi við að þjónusta hugbúnað. Lengi hefur verið haldið fram að aukin menntun kvenna muni skila þeim sama framgangi innan atvinnulífsins og tekjum eins og körlum. Upplýsingatækni- og hugbúnaðarfyrirtæki eru kjörin vettvangur til að kanna með hvaða hætti kynjun starfa á sér stað þar sem hér er á ferðinni tiltölulega ný atvinnugrein og því athyglisvert að skoða hvers vegna karlar og konur með sömu eða sambærilega menntun fara í mismunandi störf. Á sama tíma hefur verið haldið fram að störf í upplýsingatækniiðnaði henti konum að mörgu leyti betur en körlum vegna eiginleika sem þær eru frekar taldar búa yfir og því muni þessa nýja starfsgrein stuðla enn frekar að framgangi kvenna innan atvinnulífsins.

Í fyrirlestrinum, sem byggir á rannsókn þar sem tekin voru eigindleg viðtöl við starfsfólk hugbúnaðarfyrirtækja auk þátttökuathuganna innan sömu fyrirtækja, verður leitast við að skoða hvað valdi þessari skiptingu og hvort það sé eitthvað í fari kvennanna sem geri það að verkum að þeim sé talið henta betur að þjónusta hugbúnað en að vinna við hugbúnaðargerð eða hvort samfélagslegar væntingar um ólík hlutverk karla og kvenna stuðli að þessari skiptingu og hvernig einstaklingarnir sem sinna störfunum bregðast við hinum samfélagslegu væntingum. Sjá þau sig í hlutverki Súpermans með rauða skikkju eða konunnar með lampann, Florence Nightingale, sem líknar.

Þórdís Þórðardóttir: Hvernig á að kenna kennaranemum kynjafræði?

Könnun var lögð fyrir fyrsta árs kennaranema í Kennaraháskóla Íslands árið 2004 til þess að fá fram hugmyndir þeirra um hvað þeir teldu mikilvægt að læra um kynjamismun. Í ljós kom að kennaranemarnir töldu m.a. upp að þeir þyrftu að vita hvaða áhrif staðalmyndir hefðu á börn, hvaða áhrif kyn hefði á nám barna, hvaða áhrif það hefði að kennarastéttin er kvennastarf, hvort það sé rétt að skólinn sé kvenlægur og strákar fari halloka í skólakerfinu. Einhverjir höfðu áhyggjur af því hversu mörg börn alast upp hjá einstæðum mæðrum og aðrir töldu mikilvægt að læra um kynjafræði vegna þess að hún tengist hinsegin fræðum eða fræðum um samkynhneigð. Ýmis fleiri atrið voru talin upp til dæmis að kynjaumræða sé hluti af nútíma samfélagsumræðu og að kynjamismunur sé staðreynd sem kennarastéttin þyrfti að bregðast við. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að um það bil 80% kennaranemanna hefðu talsverðan áhuga á kynjafræðum. Fimmtungur þátttakanda var andvígur kynjafræðinámi í kennaramenntun og rökstuddu mótstöðu sína m.a. með því að kyn skipti ekki máli í kennslu, að allt of mikið væri gert úr kynjamálefnum.

Jafnréttisnefnd Kennaraháskóla Íslands lagði fyrir könnun meðal kennara í Kennaraháskólanum vorið 2006. Svarhlutfall var 36% eða 48 kennarar. Af þeim töldu tuttugu kennara að þeir fjölluðu um jafnréttismál í sameiginlegum námskeiðum í grunndeild en þeim var uppálagt að leggja sama skilning í jafnréttishugtakið og Jafnréttisnefndin en það spannar alla minnihluta hópa. Kennaranemum er boðið upp á valnámskeið í kynjafræðum og er aðsókn dræm. Engar skýringar liggja fyrir á misræminu sem er á milli þátttöku og yfirlýsts áhuga í könnuninni haustið 2004 en ljóst er að brýnt er að efla kynjafræði í menntun kennara. Nauðsynlegt er að kennaranemar læri um lagalegu skyldu skóla til að sinna jafnréttisfræðslu og að þeir verði undirbúnir til að taka á kynjamisrétti meðal nemenda í skólum landsins. Í þessu erindi verður reynt að varpa ljósi á mikilvægi kynjafræðinnar í kennaramenntun og reifað hvernig hugsanlega megi standa að slíkri kennslu og festa hana í sessi.

Ingólfur Á. Jóhannesson: Drengjaorðræðan og bakslagið í jafnréttisbaráttunni: Ísland og Ástralía

Orðræðan um að drengjum gangi illa í skólum er alþjóðleg orðræða þótt hún eigi sér sér-íslenskar birtingarmyndir. Mismunandi mikilvægar vísbendingar um gengi drengja í námi og líðan í skólum er í sumum tilvikum notuð sem rök gegn jafnréttisstarfi, byggðu á femínisma. Í erindinu verður fjallað um á hvern hátt orðræðan um að drengjum gangi illa í skóla hefur haft áhrif á þróun jafnréttisbaráttu í tveimur löndum, Íslandi og Ástralíu.