Málstofa X – Femínismi og jafnréttisbarátta

Þorgerður Einarsdóttir: Íhlutun og annarleiki: Femínistamafían og ógn kynjafræðinnar

Ýmsir hafa viðrað áhyggjur af akademískum femínisma. Framakonur í pólitík og viðskiptum vara við „þeirri stefnu sem fræðilegur femínismi hefur tekið“ og boða „femínisma án öfga“. Áhrifamikill fjölmiðlamaður bloggar um að kynjafræði sé ekki vísindi heldur „hálf-akademískur klúbbur sem hópur fólks stofnar um lífsskoðanir sínar“, og loks hafa kynjafræðingar í Háskóla Íslands verið kallaðir „femínistamafían“. Innan vísindasamfélagsins er einnig vart tortryggni. Varað hefur verið við að „knýja fram“ kynjasjónarmið þar sem slík „íhlutun annarra“ geti falið í sér ógn við akademískt frelsi. Í fyrirlestrinum verður þessi orðræða „annarleikans“ skoðuð og sett í samhengi við vísindarýni og samfélagsgagnrýni kynjafræðinnar. Loks verður erindi kynjafræðinnar við samtímann reifað, þverfræðilegar nálganir hennar, greining á hnattrænum og staðbundnum valdatengslum, og samþætting mismunarbreyta.

Gyða Margrét Pétursdóttir: List og húmor sem vopn í femínískri baráttu

Félagsleg völd hópa innan samfélagsins má mæla með því að kanna hvort viðkomandi hópur sé með í gríninu – á eigin forsendum. Í erindinu verður þeirri spurningu velt upp hvort listsköpun og húmor geti verið vopn í femínískri eða kvennapólitískri baráttu. Sýnd verða brot úr sjónvarpsefni sem hópur kvenna stóð að með það að markmiði að skemmta landanum, hinn pólitíski undirtónn var þó aldrei langt undan. Leitast verður við að greina frá hverjum var skemmt og hugsanlegum ávinningi er varða jöfn réttindi kvenna og karla.

Hugrún R. Hjaltadóttir: Áhrifamikill útúrsnúningur, kaldhæðni sem leið til hugarfarsbreytingar

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um kaldhæðni og hlátur sem tæki til hugarfarsbreytingar. Kaldhæðni er flókin og tvíræðin og þess vegna umdeilt fyrirbæri. Hún vekur ólíkar tilfinningar hjá fólki, allt frá reiði til gleði og hláturs, enda getur hún gert gys að, ráðist á, útilokað og lítillækkað hina líklegustu og ólíklegustu hluti og fólk. Ég hef samt mestan áhuga á þeim eiginleika kaldhæðninnar að geta snúið út úr og grafið undan og þar með að ógnað ríkjandi samfélagsskipan. Samkvæmt kenningu Judith Butler eigum við að leita leiða til að breyta ríkjandi gildum innan orðræðunnar. Kaldhæðnin hefur þann eiginleika að geta brotið niður ríkjandi orðræðu innanfrá, komið henni úr jafnvægi og ögrað yfirráðum hennar með því að eigna sér vald hennar. Það þýðir að ,,lesandanum“ er ekki boðið upp á aðra leið til þess að, í þessu tilfelli, tjá kvenleika eða gagnkynhneigð heldur kemur ójafnvægi á ríkjandi hugmyndir sem gefur von um eitthvað annað, eitthvað öðruvísi.

Annadís Greta Rúdólfsdóttir: Sjaldan á dagskrá: Ungar breskar konur tala um femínisma

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þær myndir sem fyrirbærin ‘femínismi’ og ‘femínisti’ tóku á sig í viðtölum við níu ungar breskar konur veturinn 2006 (Rúdólfsdóttir og Jolliffe, 2007). Hvers konar orðræður og hugmyndafræði leita ungu konurnar í þegar þeir setja fram skoðanir sínar? Finnst þeim þörf á femínisma í nútímasamfélagi og þá hvers konar? Niðurstöður verða tengdar við umfjöllun um birtingarmyndir femínisma og andfemínisma í vestrænu samfélagi (t.d. Gill, 2007; McRobbie, 2004) og hugleiðingar um það hvort tímabil postfemínisma sé runnið upp.

Hjálmar G. Sigmarsson: Af hverju eru þið að þessu? Karlmenn og jafnréttisbarátta

Hjálmar skoðar í erindi sínu hlutverk karlmanna í jafnréttisbaráttunni. Hann veltir fyrir sér hvaða tilgangi það þjóni að karlmenn taki virkan og áberandi þátt í umræðunni um jafnan rétt kynjanna. Til þess að varpa ljósi á þetta lýsir hann reynslu sinni af starfi sínu í karlahópi Femínistafélagsins. Undan farin fjögur ár hefur karlahópur Femínistafélagsins staðið að átakinu *Karlmenn segja Nei við nauðgunum* og mun hann lýsa þeim viðbrögðum og viðmóti sem karlahópurinn hefur fengið í því starfi. Fjallar hann um mikilvægi þess að virkja karlmenn á öllum aldri í jafnréttisumræðunni og þá sérstaklega í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Hjálmar skoðar mikilvægi þess að hvetja karlmenn til þess að taka ábyrgð og sýna afstöðu og vekja aðra karlmenn til umhugsunar. Það hefur sýnt sig að með meiri umræðu hefur áhugi karlmanna fyrir því að taka afstöðu aukist. Samt sem áður er langt í land að allir karlmenn séu til í að taka virkan þátt. Hverju sætir þetta afstöðuleysi margra karlmanna og hvaða áhrif hefur jafnréttisbarátta á ímynd og jafnvel sjálfsmynd karlmanna? Eiga nútíma karlmennska og jafnréttisbarátta ekki samleið?

Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur: Valerie og Sara: Vægðarlaus tilraun til skilnings og samúðar – Um verðlaunaskáldsögu Söru Stridsberg, Draumadeildina (2006)

„Þar sem tilveran í samfélagi okkar er, í besta falli, hundleiðinleg og ekki nokkur hlið samfélagsins hefur snefil af þýðingu fyrir konur, er eina úrræðið fyrir borgaralega þenkjandi, ábyrgðarfullar konur sem vilja lifa spennandi lífi að steypa ríkisstjórninni úr sæti, útrýma peningakerfinu, koma á fót algjörri sjálfvirkni og eyða karlkyninu.“ Þannig hefst hin árásargjarna og vægast sagt umdeilda stefnuyfirlýsing – S.C.U.M. Manifesto (Society of Cutting Up Men) – uppreisnarkonunnar og öfgafeminístans Valerie Solanas (1936-1988) sem kom út árið 1967. Ári síðar varð Solanas fræg (í meira en korter) þegar hún reyndi að drepa Andy Warhol. Hver var Valerie Solanas og á hún sér einhverjar málsbætur? Það eru þessar spurningar sem segja má að liggi til grundvallar verðlaunaskáldsögu Söru Stridsberg (f. 1973) Draumadeildinni (Drömfakulteten) sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2007. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessar tvær konur, um femínisma þeirra, og þó sérstaklega um skáldsöguna Draumadeildina, sem hefur reyndar undirtitilinn: „Framlag til kynjafræða“ (Tillägg till sexualteorin).