Málstofa VIII – Hann / Hún?

Viðar Hreinsson: Arfur ofbeldis?

Stephan G. Stephansson var meðal fyrstu Íslendinga til að drepa á kvenréttindi í skrifum sínum. Árið 1882 orti hann kvæði um kvenréttindi sem vel kann að vera hið fyrsta sinnar tegundar á íslensku. Á tíunda áratug nítjándu aldar orti hann allmörg kvæði byggð á fornum sögum. Í einu þeirra, „Hervör á haugi Angantýs“ spyr hann áleitinnar spurningar um hvers konur skuli krefjast af körlum – hvort ofbeldið skuli fylgja föðurarfinum.

Sigríður Þorgeirsdóttir: Er guð sem karl eða kona dauð(ur)? Um trúarheimspeki Luce Irigaray

Í fyrirlestrinum verður fjallað um: 1) Gagnrýni Luce Irigaray á karlhverfar guðshugmyndir vestrænnar trúarhefðar, 2) hugmyndir hennar um kvenleika hins guðlega/guðleika hins mannlega, og 3) spurninguna hvort tími kyn-legra guða sé liðinn.

Hlynur Helgason: Hún sjálf

Greining á virkni persónuvísana í kvikmynd belgísku framúrstefnukvikmyndakonunnar Chantal Akerman, ‘Je, tu, il, elle’ með hliðsjón af skilgreiningum Émile Benveniste um notkun fornafna og umfjöllun fransk-alsírsku fræðikonunnar Hélène Cixous um gildi framsetningar kven-sjálflægra hugmynda í riti og aðgerðum.