Málstofa VII – Kynjamótun unga fólksins

Andrea Ólafsdóttir og Hjálmar G. Sigmarsson: Klámkynslóðin? Upplifun og viðhorf unglinga til kláms

Andrea og Hjálmar kynna niðurstöður úr nýsköpunarsjóðsverkefni sem þau unnu sumarið 2006. Með aukinni og almennri tölvu- og netvæðingu hefur klámefni orðið mun aðgengilegra og þá einnig fyrir börn og unglinga. Ætla má að sú kynslóð sem nú vex úr grasi hafi séð mun meira og grófara klám heldur en nokkur kynslóð sem á undan hefur farið. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast dýpri og margþættari skilning á því hvort og hvernig unglingar upplifa og túlka klám í sínu umhverfi; hvaða skoðanir þau hafa á því; og hvernig þau tjá sig um klám. Einnig var skoðað hvort og hvernig stelpur og strákar upplifi og tjái sig um klám með ólíkum hætti. Að auki var það markmið þessarar rannsóknar að efla umræðu og fræðslu um áhrif kláms á ungt fólk.

Dr. Guðbjörg Hildur Kolbeins: Hvað getur You tube-kynslóðin lært af Beyoncé og Britney?

Talsverð umræða hefur verið á síðustu árum um klámvæðingu almannarýmisins og þau áhrif sem hún kann hugsanlega að hafa á ungmenni. Réttara væri ef til vill að tala um kynlífsvæðingu fremur en klámvæðingu þar sem kynlíf skipar æ stærri sess í afþreyingariðnaðinum, m.a. í tónlistarmyndböndum. Í erindinu verður greint frá niðurstöðum innihaldsgreiningar á tónlistarmyndböndum á sjónvarpsstöðinni PoppTíVí sem framkvæmd var í febrúar 2006. Fjallað verður um hlutfall kvenna og karla meðal flytjenda, klæðnað þeirra og ímynd, og notkun á kynlífstengdu þema. Niðurstöðurnar verða síðan settar í samhengi við lífsstíl íslenskra ungmenna.

Salvör Gissurardóttir: Myspace sjónarhornið – Ímyndarsköpun í netsamfélögum eins og Myspace og Facebook

Á þessum fyrirlestri verður fjallað um nokkur vinsæl netsamfélög ungmenna og rýnt í hvernig kynímynd verður til og hvort eða að hvaða leyti staðalímyndir um kyn ráða för þegar einstaklingar búa um sig í netheimum.