Málstofa VI – Gyðjur og dýrlingar

Ingunn Ásdísardóttir – „freyjur og maríur“; um ímynd og þróun gyðja í Evrópu í gegnum aldirnar

Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt spænskudeild Háskóla Íslands. Alþýðudýrlingarnir Teresa Urrea og Sarita Colonia í bókmenntum Rómönsku Ameríku

Alþýðudýrlingar njóta sífellt meiri vinsælda í löndum Rómönsku Ameríku. Þetta eru dýrlingar sem alþýðan hefur tekið í helgra manna tölu en eru ekki viðurkenndir opinberlega sem slíkir. Nokkrir þeirra hafa ratað inn í heim bókmennta, m.a. Teresa Urrea frá Mexíkó (1872-1906) og Sarita Colonia (1914-1940) frá Perú, en árið 1990 komu út skáldsögurnar La insólita historia de la santa de Cabora (Hin undraverða saga dýrlingsins af Cabora) eftir mexíkönsku skáldkonuna Brianda Domecq (f. 1942) og Sarita Colonia viene volando (Sarita Colonia kemur fljúgandi) eftir Perúmanninn Eduardo González Viaña (f.1941). Teresa, sem var dóttir indíánakonu og búgarðseiganda, fór að stunda lækningar ung að aldri meðal indíána Norður-Mexíkó þegar þeir stóðu í sem harðvítugastri baráttu við að halda jörðum sínum. Stjórnvöld töldu hana kynda undir þessari báráttu og var hún send í útlegð til Arizona þar sem hún dó 33 ára að aldri. Sarita var dóttir bændafólks í Andesfjöllum sem fluttist til Lima í leit að betra lífi; þar framfleytti hún sér sem vinnukona og lagði sig alla tíð fram við að hjálpa þeim sem minna mega sín. Fljótlega eftir yfirnáttúrulegan dauðdaga var hún tekin í helgra manna tölu og er grafreitur hennar einn mest sótti pílagrímastaður í Perú nú á dögum. Í erindinu verður stiklað á stóru í sögu óformlegra kvendýrlinga frá ýmsum löndum Rómönsku Ameríku en einkum verða sögur Teresitu og Saritu teknar fyrir, örlög þeirra borin saman og myndin sem dregin er upp af þeim í bókum Domecq og González Viaña skoðuð.