Málstofa IV – miðaldir

Steinunn Kristjánsdóttir: Kyn og kyngervi í kirkjugarði miðaldaklaustursins að Skriðu í Fljótsdal

Þrátt fyrir að allir skuli jafnir fyrir Guði hefur kyn, aldur og félagsleg staða í lifanda lífi kristinna oft ráðið endanlegum hvílustað látinna, ef marka má uppgrefti á kirkjugörðum í Evrópu. Afmörkun af slíku tagi má einmitt greina í gröfum sem grafnar hafa verið upp í kirkjugarði munkaklaustursins sem starfrækt var á bænum Skriðu í Fljótsdal á 16. öld. Um helmingur klausturrústanna hefur nú verið grafinn upp, þ.á.m. átta vistarverur af ýmsum gerðum, kapella, hluti klausturkirkju og klausturgarður frá því að uppgröftur þar hófst sumarið 2002. Innan kirkjunnar og garðsins hafa verið grafnar upp 50 grafir sem hafa innihaldið bein fullorðinna jafnt sem barna og fyrirbura. Á staðnum hafa fundist áhöld til handlækninga og leifar plantna til lyflækninga sem benda til þess konar starfsemi þar en margar beinagrindur fullorðinna bera auk þess skýr einkenni langvinnra sjúkdóma eða áverka vegna slyss eða álags. Ólíkt því sem greina má í hefðbundnum sóknarkirkjugarði, þar sem einstaklingar voru gjarnan jarðsettir í afmörkuðum fjölskyldutengdum reitum, gefur dreifing legstæða í Skriðuklausturskirkjugarði til kynna mun flóknara mynsturs við val á legstæðum, enda voru klaustrin skyldug að taka við öllum þeim einstaklingum sem þangað sóttu og veita þeim andlega eða líkamlega líkn. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þá félagslegu þætti sem hugsanlega gátu stjórnað vali á staðsetningu legstaða þeirra sem hvíla í Skriðuklausturskirkjugarði og hvernig þeir geta endurspeglað þversnið umliggjandi samfélags. Þeir sýna samblöndun ýmissa sjálfsmynda (e. identities), sem byggja á flóknu samspili trúarlegrar og veraldlegrar stöðu einstaklingsins en í henni felst jafnframt kyngervi, kyn, aldur og félagsleg staða.

Auður Ingvarsdóttir: Margkunnugar konur og óborin börn. Úr kvenlegum reynsluheimi á miðöldum

Í fornum ritum er talað um margvísar konur og margkunnandi, fjölkunnugar og fróðar, oft er verið að vísa til einhverrar yfirnáttúrulegrar þekkingar sem var eftirsóknarverð (eða háskaleg). Þessi kunnátta að geta á einhvern hátt ráðið við náttúruna hefur oft á tíðum verið jafngild kunnáttu við lækningar og fæðingarhjálp. Bjargrúnir þurfti að kunna til þess að „leysa kind frá konu” segir í fornu kvæði og yfirsetukonan Oddný gól ramma og bitra galdra til þess að hjálpa konu í barnsnauð. (Eddukvæði). Lærð kunnátta ættuð frá grískum lærdómsmönnum barst á miðöldum til Evrópu, og er líklegt að áhrifa frá slíkum fróðleik hafi snemma gætt jafnvel þó ekki sé varðveitt eldra lækningahandrit hér á landi en frá 13. öld. Latínufróðir menn og sigldir hafa auðveldlega getað aflað sér slíkrar kunnáttu snemma á ritöld og fræðin einnig getað borist með innflytjendum frá Bretlandseyjum. Í fyrirlestrinum mun ég beina sjónum sérstaklega að margkunnandi ambátt sem sagt er frá í Landnámu og leiða líkur að því að sú hafi einmitt verið kunnug slíkum fornum fróðleik og þjónusta hennar við ónefnda drottningu og Þuríði Eyvindardóttur hafi verið af þeim meiði.

Helgi Skúli Kjartansson: Einlífi í alvöru? Fjölskylduhagir íslensku prestastéttarinnar á miðöldum

Krafan um einlífi og skírlífi kirkjunnar þjóna, sem flestir voru karlmenn, er áberandi þáttur í kynjasögu miðalda. Á Íslandi viðgengust hjónabönd presta lengur en í nálægum löndum. Síðan varð siður að prestar byggju með fylgikonum og ættu með þeim arfgeng börn. Um það er Jón biskup Arason frægasta dæmið en fjarri því hið eina. Heimildir eru, bæði á Íslandi og annars staðar, ríkulegastar um hinn virðulegri hluta prestastéttarinnar. Um óbreytta sveitapresta hafa söguritarar sums staðar dregið í efa hvort einlífiskrafan hafi náð til þeirra í raun, og um Ísland hafa sumir gert ráð fyrir að þar hafi orðið enn minna úr einlífiskröfunni en í grannlöndunum. Orri Vésteinsson hefur sýnt fram á að á 13. öld var kröfunni um ókvæni presta framfylgt á Íslandi í fullri alvöru, einnig gagnvart djáknum. Síðan er ljóst að við siðaskiptin var það umtalsvert og óleyst vandamál hvernig átti að tryggja prestum hins nýja siðar fjárhagsgrundvöll til að lifa sem fjölskyldumenn. Af því vil ég álykta að fyrir siðaskipti hafi óbreyttir sveitaprestar lifað við raunverulegt ókvæni og ekki borið fjölskylduábyrgð. Sú skipan hefur væntanlega staðið óröskuð frá 13. öld en fylgikvennahald háklerkanna á 15. öld verið nýmæli, nokkuð í stíl við hin margumræddu kvennamál kirkjuhöfðingja suður á Ítalíu á endurreisnartíma. Hvort ókvænið táknaði í senn einlífi og skírlífi er flóknara mál. Þó verður að ætla að kynferðisleg sjálfsafneitun hafi að verulegu leyti verið hlutskipti íslenskra miðaldapresta.