Málstofa III – Fjölskyldan og verkaskipting

Ingólfur V. Gíslason, félagsfræðingur: Feðurnir og nútímavæðingin

Á síðustu árum og áratugum hefur orðið nokkur breyting á stöðu feðra í íslensku samfélagi og raunar vestrænum samfélögum almennt. Jafnt og þétt hefur fjarað undan fyrirvinnuhlutverkinu og húsbóndastöðunni en á hinn bóginn orðið nokkur þróun í þá átt að fjölskylduvæða feðurna. Þessar breytingar tengjast gildaupplausn nútímans, kröfunni um skynsamlegan rökstuðnings fyrir vali einstaklinga í lífinu og einstaklingsvæðingu samfélaga. Á grundvelli nokkurra nýlegra eigindlegra athugana verður leitast við að svara spurningum um þróunarlínur varðandi stöðu karla og kvenna, barna og fjölskyldna.

Þóra Kristín Þórsdóttir aðferðafræðingur: Seinni vaktin: Heimilisstörf og kyn á Íslandi

Greinin fjallar um verkskiptingu á heimilum á Íslandi og er byggð á rannsókn sem unnin var sem hluti af Msc ritgerð í aðferðafræði félagsvísinda við London School of Economics sumarið 2007. Unnið var með tvenns konar gögn: djúpviðtöl við íslensk hjón og endurtekningu á International Social Survey sem gerð var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Stefán Ólafsson prófessor sumarið 2005. Seinni vaktin (the second shift) á við um alla þá vinnu sem tilheyrir heimilinu, s.s. heimilisstörf og barnauppeldi. Í öllum hinum vestræna heimi tilheyrir þetta svið að mestu leyti konum. Innan Evrópu virðist skipting heimilisstarfa og barnauppeldis vera jafnari því norðar sem dregur í álfunni svo jöfnust er verkskiptingin á Norðurlöndunum. Lítið hefur verið skrifað um efnið á Íslandi og því ástæða til rannsaka hvernig við stöndum miðað við helstu samanburðarþjóðir (Noreg, Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Bretland).

Í upphafi greinarinnar er skipting heimilisstarfa kynnt sem fræðilegt viðfangsefni ásamt því sem mynd verður dregin af verkskiptingu heimila í samanburðarlöndunum. Þá verður farið yfir helstu kenningar um tilurð og mótun þessarar skiptingar. Svo verður fjallað um niðurstöður rannsóknarinnar varðandi verkskiptingu íslenskra para þar sem báðir aðilar eru útivinnandi ásamt því að niðurstöður þessar verða bornar saman við sambærileg gögn frá Norðurlöndunum og Bretlandi. Að lokum verður fjallað um þá þætti sem virðast hafa áhrif á hvernig íslensk hjón skipta með sér verkum og velt upp spurningum er varða afleiðingar verkskiptingarinnar. Megin niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að þó íslenskar konur verji að meðaltali svipuðum tíma í heimilisstörf og konur í samanburðarlöndunum, þá verja íslenskir karlmenn heldur minni tíma í þau störf en karlar í sömu löndum. Ýmsir þættir hafa áhrif á verkskiptinguna og eru þeir mismunandi eftir kyni sem er í samræmi við sambærilegar rannsóknir erlendis.

Þóroddur Bjarnason og Andrea Hjálmsdóttir: Íhaldssöm viðhorf unglinga til verkaskiptingar á heimilum

Misrétti kynjanna er minna á Íslandi en víðast hvar annars staðar í heiminum. Engu að síður er langt frá því að fullt jafnrétti hafi náðst, og nægir þar að nefna þætti á borð við launamun kynjanna og rótgróna verkaskipting á heimilum. Nokkuð hefur verið rætt um stöðnun eða jafnvel bakslag í jafnréttisbaráttunni að undanförnu, og bendir ýmislegt til þess viðhorf til jafnréttismála séu nú neikvæðari en fyrr. Í þessari rannsókn er sýnt fram á að viðhorf unglinga til verkaskiptingar á heimilum voru marktækt hefðbundnari árið 2006 en þau höfðu verið árið 1992. Hefðbundnari viðhorf til verkaskiptingar á heimilum tengjast ýmsum þáttum í lífi unglinga, svo sem erlendum uppruna, hefðbundnu fjölskyldumynstri, þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi, snemmbæru kynlífi, andlegri vanlíðan og neikvæðri líkamsímynd. Meðal stráka tengist eðlishyggja hefðbundnari viðhorfum til hlutverka karla á heimili, en nýfrjálshyggja tengist einkum hefðbundnari viðhorfum til hlutverka kvenna.

Helga Gottfreðsdóttir, Jane Sandall og Kristín Björnsdóttir: Er kynbundinn munur á afstöðu verðandi foreldra til skimunar fyrir fósturgöllum?

Hnakkaþykktarmæling sem aðferð til að skima fyrir fósturgöllum, sérstaklega Downs heilkenni, hefur hlotið mikla útbreiðslu á Íslandi. Á síðasta ári fóru tæplega 90% verðandi mæðra á höfuðborgarsvæðinu í rannsóknina. Í leiðbeiningum landlæknisembættisins sem nýlega voru kynntar á vef embættisins er lögð áhersla á að ákvarðanataka verðandi foreldra um að þiggja slíka rannsókn byggi á upplýstu vali. Hér á landi hafa viðhorf verðandi foreldra til þessarar skimunar lítt verið könnuð né samspil þeirra í ákvarðanatöku um rannsóknina. Því er það markmið þessarar rannsóknar að skoða samspil verðandi foreldra í ákvarðanatöku um fósturskimun og hvort afstaða til skimunar mótist að einhverju leyti af kyni.

Eigindlegri rannsóknaraðferð sem nefnd er framework analysis (sem byggir að hluta á grundaðri kenningu) var beitt. Tíu pör frá fjórum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu samþykktu að taka þátt í rannsókninni. Skilyrði fyrir þátttöku voru að aldur hinna verðandi mæðra væri 18-35 ára, móðurmál íslenska og ekki saga um fötlun hjá áður fæddum börnum né sjúkdómar hjá móður sem kynnu að auka líkur á fötlun hjá barni. Viðtöl fóru fram við verðandi foreldra sitt í hvoru lagi, tvisvar á meðgöngu, í 7-11 viku og 20-24 viku, samtals 40 viðtöl. Í niðurstöðunum kom fram að ákvörðun um að þiggja skimun er tekin af verðandi móður. Í fæstum tilfellum ræða verðandi foreldrar ákvörðunina í sameiningu. Væntingar þeirra til skimunarinnar birtast með mismunandi hætti. Konurnar vænta þess að fá fullvissu um að barnið sé heilbrigt en hjá körlum tengjast væntingar til skimunar því að hafa stjórn á aðstæðum. Vísbending er um mismunandi sýn kynjanna á frávikum eins og Downs heilkenni en þar er frekari rannsókna þörf þar sem tilgangur skimunar í upphafi er að verðandi foreldrar geti tekið upplýsta ákvörðun um að þiggja skimunarpróf til að meta líkur á slíkum frávikum.

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru innlegg í þá umræðu sem á sér nú stað um hvernig beri að standa að fræðslu um skimanir í upphafi meðgöngu. Jafnframt gefa þær vísbendingu um þátttöku verðandi feðra í ákvarðanaferlinu.