Málstofa II – Ofbeldi og þjáning

Sólveig Anna Bóasdóttir: Frá vanlíðan til heilbrigðis. Framlag kristinnar femínískrar siðfræði til forvarna á sviði kynbundins ofbeldis

Í sameiginlegri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Bandarísku heilbrigðismálastofnunarinnar (PAHO) og Alheimssamtaka um kynfræði (WAS) frá árinu 2000 er rakin jákvæð þróun á sviði kynheilbrigðis (sexual health) sl. 25 ár. Meðal þeirra atriða sem nefnd eru er hið drjúga þekkingarframlag kvenna- og kynjafræða varðandi kyngervi (gender), kynferði (sex) og kynverund (sexuality) sem hafi beina skírskotun til heilbrigðis. Markmið þessa erindis er að undirstrika mikilvægi og skýra framlag kristinnar, femínískrar siðfræði til kynheilbrigðis. Kastljósinu er beint að einu alvarlegasta heilsufarsvandamáli kvenna á heimsvísu; ofbeldi karla gegn konum. Almennt er viðurkennt að ofbeldi gegn konum tengist m.a. samfélagslegum viðmiðunum og neikvæðum viðhorfum til kvenna. Femínísk siðfræði innan kristinnar hefðar nálgast þetta vandamál með því að undirstrika mannréttindi, manngildi og sjálfræði kvenna sem byggir á kristnum mannskilningi sem viðurkennir og styður við kynverund allra manneskja. Í erindinu er því haldið fram að með tilvísun til kristinna hugmynda um sköpun mannsins og upprisu fyrir Jesú Krist megi byggja inn öfluga vörn gegn kynbundnu ofbeldi samtímis sem stutt er við kynheilbrigði.

Arnfríður Guðmundsdóttir: Og Guð sagði við konuna: „…Með þraut skalt þú börn fæða ….“ (1M 3.16) Hin kynbundna vídd þjáningarinnar í gyðing-kristinni trúarhefð

Í þriðja kafla fyrstu Mósebókar segir frá því þegar Guð refsaði konunni og karlinum fyrir óhlýðnina forðum daga í aldingarðinum Eden. Refsing þeirra var í formi þjáningar, karlinn átti að erfiða og strita, en konan að þjást í meðgöngu og fæðingu, en auk þess að þola „drottnun“ karlsins. Þjáningin hefur frá upphafi gegnt mikilvægu hlutverki innan gyðing-kristinnar trúarhefðar. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um hlutverk og merkingu þjáningarinnar. Skoðaðir verða valdir textar úr Biblíunni, þar sem þjáningin kemur við sögu. Hugað verður sérstaklega að kynbundinni þjáningu og því hvernig hún hefur verið notuð til að varpa ljósi á eðli og eiginleika Guðs, t.d. með því að líkja Guði við jóðsjúka konu (Jes 42.14).

Annette Lassen: Kynlífspíslir Bess í Breaking the Waves: Ævintýri á hvíta tjaldinu í anda H.C. Andersen

Þegar Breaking the Waves eftir Lars von Trier var frumsýnd 1996 var mikið rætt um kynjamynd kvikmyndarinnar enda leggur aðalpersónan Bess (Emily Watson) á sig einskonar kynferðislega píslargöngu sem leiðir í senn til dauða hennar og upphafningar til heilagrar meyjar. Rætt verður um möguleg textatengsl milli Breaking the Waves og nokkurra ævintýra eftir H.C. Andersen þar sem konur fórna sér einnig fullkomlega fyrir líf annarra.

Sigrún Sigurðardóttir: Kynferðisleg misnotkun og önnur sálræn áföll í æsku og áhrif þeirra á heilsufar og líðan kvenna

Rannsóknir sýna að börn sem verða fyrir ýmsu ofbeldi eða kynferðislegri misnotkun upplifa mikla vanlíðan, eru með geðræn vandamál, lélega sjálfsmynd og sjálfsvígshugsanir. Á fullorðinsárum koma fram ýmis líkamleg, geðræn og félagsleg vandamál og einstaklingar leita mikið í heilbrigðisþjónustuna.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna heilsufar og líðan kvenna sem hafa orðið fyrir sálrænum áföllum í æsku, eins og kynferðislegri misnotkun og öðru ofbeldi. Rannsóknaraðferðin var fyrirbærafræðileg, eigindleg og kennd við Vancouver-skólann. Tekin voru samtals 14 viðtöl við sjö konur á aldrinum 30-65 ára sem höfðu slíka sögu og höfðu leitað sér aðstoðar í heilbrigðiskerfinu.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að sálræn áföll í æsku, eins og kynferðisleg misnotkun og ofbeldi, hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Þeim var skipt í sex megin þemu: 1) Upplifun af áfallinu, þar sem konur ýmist lokuðu á sára reynslu, fóru útúr líkamanum eða upplifðu ,,sálarmorð”. 2) Slæm líðan sem barn og unglingur þar sem þær lýsa allar mikilli vanlíðan, voru með geðræn og líkamleg einkenni og voru berskjaldaðar fyrir endurteknu ofbeldi. 3) Líkamleg einkenni sem þær voru þjakaðar af á fullorðinsárum eins og móðurlífsvandamál, útbreiddir verkir, vefjagigt og eru fimm þeirra öryrkjar sökum þess. 4) Geðræn vandamál sem hafa þjakað þær allt lífið með kvíða, þunglyndi, sjálfsvígshugsunum og sjálfsvígstilraunum. 5) Erfiðleikar við tengslamyndun, traust og snertingu, en þeim hefur gengið mjög illa að tengjast maka og börnum og átt erfitt með snertingu og kynlíf. 6) Staðan í dag og horft til framtíðar. Allar konurnar þróuðu með sér einkenni áfallaröskunnar, lifa við mikla vanlíðan í dag, eru oft fullar vonleysis og finnst þær vera að gefast upp á lífinu.