Málstofa I – Ísland og alþjóðasamfélagið

Guðbjörg Lilja Hjartardóttir: Skiptir kyn máli í samskiptum ríkja?

Hlutverk og virkni beggja kynja er mikið í hnattvæðingu efnahags- og viðskiptalífsins. Karlar eru hins vegar mun sýnilegri í stefnumótun og ákvarðanatöku og í fræðum alþjóðastjórnmála og alþjóðahagfræði. Kynblind þekkingar- og aðferðarfræði hefðbundinna rannsókna í þessum fræðum er gagnrýnd fyrir að mistakast að greina hvers vegna nútímavæðing og þróun bitnar á sumum hópum í stað þess að bæta stöðu þeirra. Utanríkisviðskipti íslenskra fyrirtækja hafa margfaldast á skömmum tíma og þau sækjast m.a. eftir ódýru vinnuafli Kínverja. Ólík staða kynjanna og kynjatengsl skipta máli þegar vinnuaflið er gert ódýrt.

Kristín Loftsdóttir og Helga Björnsdóttir: Hetjur út í heim: Karlmennska og íslensk þróunaraðstoð

Í þessum fyrirlestri er þróunarhjálp skoðuð sem kynjað fyrirbæri, þá sérstaklega út frá hugmyndum um karlmennsku, en í kenningarlegri umræðu um þróun og þróunarhjálp gætir nú aukinnar áherslu á að skoða karlmennskuhugmyndir og tengsl kynjanna sem áhrifaþátt í stefnumótun og framkvæmd þróunaraðstoðar. Bent hefur verið á að konur eru ekki einar um að hafa kyn (gender) heldur þurfi að skoða karla sem kynjaðar verur og hugmyndir um karlmennsku sem menningarlegt og félagslegt fyrirbæri. Breska fræðikonan Frances Cleaver hefur bent á að karlmenn séu mun minna sýnilegir í allri umræðu og stefnumótun um kyn og þróunarhjálp. Hún áréttar að þegar að skilgreiningunni Women in Developement (WID) var breytt yfir í Gender and Development (GAD) hafi tilgangurinn verið sá að leggja áherslu á nauðsyn þess að skoða félagsleg tengsl á milli kvenna og karla en engu að síður er enn þann dag í dag lítil áhersla á að skoða og skilgreina líf og störf karla á sama hátt og gert er gagnvart konum sem þróunaraðstoð beinist að. Aðrar fræðikonur hafa jafnframt bent á hvernig orðræða stjórnvalda hefur iðulega notað konur sem réttlæting fyrir inngrip vestræna þjóða í málefni ríkja þriðja heimsins, orðræða sem virðist hafa náin tengsl við eldri hugmyndir um hetjudáðir vestrænna karlmanna á fjarlægum slóðum. Umfjöllun okkar beinir sjónum að Íslandi og íslenskri aðstoð með það að markiði að spyrja hvort karlmennska birtist í umræðu um þróunarhjálp hér á landi og þá hvernig. Jafnframt verður tengt við fyrrnefndar fræðilegar hugmyndir um hetjudáðir.

Tanja Tzoneva og Rannveig Traustadóttir: Samskipti kvenna af erlendum uppruna á fjölmenningarlegum vinnustað

Erindið fjallar um samskipti kvenna af ólíku þjóðerni á fjölmenningarlegum vinnustað og byggir á eigindlegri rannsókn sem gerð var á hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Reykjavík þar sem um 30% starfsmanna voru konur af erlendum uppruna. Lítið er vitað um fjölmenningarlega vinnustaði hér á landi og reynslu erlendra kvenna af íslenskum vinnustöðum. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á samskiptum, samstarfi og líðan starfsmanna af ólíkum uppruna á fjölmenningarlegum vinnustað. Í þessu erindi verður einkum fjallað um samskipti innan og milli ólíkra þjóðernishópa. Rýnt verður í hvernig þættir svo sem þjóðerni, tungumál, aldur, starfsaldur og starfsheiti höfðu áhrif á samskipti og hvaða hlutverki líkamstjáning, hlátur og grín gegndu í samskiptum kvenna af ólíkum uppruna. Dregið verður fram hvaða þættir og aðstæður virtust helst til þess fallin að byggja brýr milli ólíkara hópa og ýta undir samskipti þeirra í milli.

Unnur Dís Skaptadóttir og Anna Wojtynska: Fólksflutningar og kynjamunur

Á síðustu árum hefur margt fólk flutt til Íslands til að vinna og bæta þannig efnahagslega stöðu sína. Konur og karlar sem hingað flytjast til lengri eða skemmri tíma ganga í mjög kynskipt störf. Konur hafa farið í störf á sviði matvælaiðnaðar og umönnunar og önnur ósérhæfð störf en körlum hefur fyrst og fremst staðið þeim til boða vinna í byggingariðnaði. Í fyrstu komu fleiri konur til starfa á Íslandi en á síðustu árum, í kjölfar stóriðjuframkvæmda, hafa karlar verið fleiri. Í fyrirlestrinum mun ég gera grein fyrir niðurstöðum rannsókna minna á þessu sviði. Ég mun m.a. fjalla um mikilvægi þess að staða þessara íbúa Íslands sé skoðuð í hnattrænu ljósi og út frá kynjafræðilegu sjónarhorni.