Freyja Haraldsdóttir

Freyja Haraldsdóttir er sjötti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „„Kvenfyrirlitningin felur sig á bakvið fötlunarfyrirlitninguna“: Andóf fatlaðra kvenna gegn ofbeldi.“ Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 15. nóvember, kl. 12:00-13:00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Sálrænar afleiðingar margþættrar mismununar fyrir fatlaðar konur á Íslandi er viðfangsefni meistararannsóknar Freyju Haraldsdóttur. Í fyrirlestrinum kynnir hún niðurstöður rannsóknarinnar sem gefa til kynna að þáttakendur upplifi margþætta mismunun í ólíkum rýmum samfélagsins sem oft er bæði dulin og meiðandi. Sálrænu afleiðingarnar eru flóknar og mótsagnakenndar og birtast í gegnum þreytu, sorg, kvíða og ótta, reiði, tilfinningar um valdaleysi, að vera öðrum háðar, hlutgervingu og afmennskun. Að þessu sinni mun Freyja draga fram úr niðurstöðum ólíkar birtingarmyndir ofbeldis í lífi fatlaðra kvenna og hvernig fatlaðar konur stunda andóf, pólitískt og persónulega, og gera kröfur um breytingar. Þá mun hún varpa ljósi á hvernig margþætt mismunun og birtingarmyndir ofbeldis gagnvart fötluðum konum hefur áhrif á þátttöku þeirra í byltingum á borð við #metoo.

Freyja Haraldsdóttir er með BA-próf í þroskaþjálfafræði, MA-próf í kynjafræði og stundar nú doktorsnám í menntavísindum við HÍ. Freyja starfar nú sem aðjúnkt við Menntavísindasvið HÍ ásamt því að vera talskona Tabú og taka virkan þátt í feminískri fötlunarbaráttu.

Finndu viðburðinn á Facebook!

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

***

Fyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er tileinkuð byltingu kvenna gegn áreitni og ofbeldi og þeim viðbrögðum, rannsóknum og aðgerðum sem af henni hafa hlotist og verður leitast við að rýna í ástæður, eðli og afleiðingar #MeToo-byltingarinnar frá margvíslegum sjónarhornum.

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Hér má nálgast upptöku af fyrirlestrinum: