Konur í stríði og friði

Árið 2000 samþykkti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sérstaka ályktun nr. 1325 um konur, stríð og friðargæslu. Kvenna og mannréttindasamtökum hafði loks tekist að opna augu hins mikilvæga ráðs fyrir því að konur eru í meirihluta meðal þeirra almennu borgara sem lenda á flótta, missa heimili sín, bera ábyrgð á börnum og gamalmennum á átakatímum og verða fyrir annars konar hremmingum en karlar, t.d. skipulögðu kynferðisofbeldi. Þegar kemur að friðarviðræðum, friðargæslu og uppbyggingu eru konur hins vegar lítt sýnilegar og hagsmunum þeirra og sérþörfum ýtt til hliðar. Það er sama hvert litið er, alls staðar blasir sama munstrið við.

Styrjaldirnar í Bosníu og Rwanda á tíunda áratug síðustu aldar eru einhver skýrustu dæmi sem við þekkjum um hvernig styrjaldir koma misjafnlega við konur og karla. Í Bosníu voru muslimskir karlmenn myrtir svo þúsundum skipti en konum nauðgað á skipulagðan hátt í sérstökum fangabúðum. Fjöldi kvenna stóð eftir niðurbrotnar á sál og líkama með börn sín og þau gamalmenni sem lifðu af. Í Rúanda var nauðgunum beitt í stórum stíl og fólki hreinlega slátrað með sveðjum.

Í kjölfar ályktunar Öryggisráðsins var ákveðið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að gera rækilega úttekt á áhrifum styrjalda á líf kvenna og stúlkubarna. Annars vegar fór fram mikil úttekt innan stofnana Sameinuðu þjóðanna í þeim tilgangi að bæta vinnubrögð, hins vegar fékk UNIFEM þær Elisabeth Rehn fyrrverandi varnarmálaráðherra og forsetaframbjóðanda frá Finnlandi og Ellen Johnson Sirleaf forsetaframbjóðanda frá Liberíu til að leiða hóp sérfræðinga sem rannsaka skyldi málið. Árið 2001 heimsóttu þær Rehn og Sirleaf ásamt liði sínu 14 átakasvæði í heiminum, allt frá Bosníu og Kosovo til Afganistan og Austur-Tímor. Undir lok síðasta árs leit skýrsla þeirra dagsins ljós með rækilegri úttekt og fjölda tillagna til úrbóta.

Skýrslan skiptist í 10 meginkafla og fjallar fyrsti hlutinn um hvers kyns ofbldi gegn konum. Sagan sýnir okkur að ofbeldi gegn konum er ekki nýtt af nálinni í styrjöldum en það sem er nýtt, eða kannski er það bara að verða opinbert, er hversu skipulagt það er og ekki síst hvernig mansal, kynlífsþrælkun og misnotkun tengist átakasvæðum. Það er þekkt að þar sem herir eru saman komnir er “markaður” fyrir vændi og kynlífsiðnað, þótt það séu ekki endilega hermenn eða friðargæsluliðar sem kaupa kynlífsþjónustu. Í Kosovo kom í ljós að heimamenn voru um 70 % þeirra sem nýttu sér ungar stúlkur sem höfðu verið fluttar inn einkum frá ríkjum fyrrum Sovétríkjanna. Þá hefur verið leitt í ljós að í kjölfar átaka eykst heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum á götum úti. Börn sem fæðast í kjölfar nauðgana hermanna eru heldur ekki óþekkt fyrirbæri. Það sem er nýtt er að konum sé nauðgað hvað eftir annað beinlínis til að geta börn og leggja þar með líf mæðranna í rúst, án þess að hugsa um hvað bíður barnanna. Annað fyrirbæri sem tengist ofbeldi gegn konum er svo nauðganir í þeim tilgangi að smita konur af alnæmi, sem sagt hægfara dauðadómur.

Í öðrum hluta skýrslunnar er fjallað um flóttakonur. Samkvæmt tölum Flóttamannastofnunar S.Þ. eru nú um 50 milljónir flóttamanna i heiminum. Um 80% þeirra eru konur og börn. Hvar er hæli, hvernig á að sjá fyrir öllum þessum fjölda og hvað gerist inna flóttamannabúða? Þar stjórna karlar, þeir fá þá vinnu sem í boði er og þar eins og annars staðar þrýfst ofbeldi og misnotkun. Konurnar eiga sér formælendur fáa og það er sjaldnast leitað til þeirra, þrátt fyrir stefnu S.Þ. sem kveður á um að þær skuli hafðar með i ráðum.

Þriðji kaflinn tekur á heilbrigðismálum, en stríðsátök hafa mikil áhrif á heilsu kvenna og barna, bæði andlega og líkamlega. Heilbrigðiskerfi brotna niður, skortur verður á lyfjum og læknisþjónustu, sjúkdómar breiðast út, fólk slasast og særist og umhverfið getur verið hættulegt vegna jarðsprengja, sprengjuúrgangs og verksmiðja sem gefa frá sér alls kyns eitur þegar þær eru sprengdar í lof upp. Það sem snýr sértaklega að konum er oftast vannæring, skortur á getnaðarvörnum, óæskilegar þunganir, þunglyndi m.a. vegna ofbeldis og áhyggur af sínum nánustu og örlögum þeirra. Alnæmi, afleiðingar þess og útbreiðsla á stríðstímum fær sérstaka umfjöllun hjá þeim Rehn og Sirleaf. Þá kemur röðin að því hvernig unnið er og hægt að vinna að friði og kafli er um hvernig verður að ná fram réttlæti m.a. með sannleiksnefndum og alþjóða sakamáladómstólnum.

Síðari hluti skýrslunnar fjallar um þær aðgerðir sem grípa þarf til svo að raddir kvenna fái að hljóma á fyrirbyggjandi hátt, sem þáttakendur í friðar- og friðargæslustarfi og í leit að réttlæti fyrir dómstólum og sannleiksnefndum (sbr. hvernig reynt var að leiða sannleikann í ljós í S-Afríku). Þá er sérstakur kafli um fjölmiðla, m.a. um það hvernig áróðri og ritskoðun er iðulega beitt í þágu stríðsherranna, þannig að fjölmiðlar bregðast því hlutverki sínu að vera fjórða valdið, vald sannleikans og gagnrýninnar sem lætur valdhafa ekki komast upp með múður.

Þær stöllur Rehn og Sirleaf benda á leiðir til að koma í veg fyrir átök, en þar nefna þær hvernig flétta þurfi kynjasjónarhornið og mismunandi stöðu kynjanna inn alla stefnumótun, inn í auknar upplýsingar til almennings, afvopnun og aðlögun að nýju samfélagi. Þær benda á hve gífurlega er fjárfest í styrjöldum í stað þess að verja fé til fyrirbyggjandi aðgðerða.

Síðasti kafli skýrslunnar segir frá því hvernig standa beri að nauðsynlegri uppbyggingu í lok átaka, sköpun atvinnu, menntun og starfsþjálfun, endurheimt landgæða, opinberri þjónustu, endurreisn stjórnkerfa og bent er á leiðir til að afla fjár til atvinnusköpunar fyrir konur. Í lokin draga þær saman tillögur sínar sem ætlaðar eru Sameinuðu þjóðunum, stofnunum þeirra og þeim aðilum sem koma að átökum og friðargæslu.

Það sem er hvað merkilegast við skýrslu UNIFEM er að þar tala konur átakasvæðanna. Það var hlustað jafnt á konurnar í Afganistan sem sættu og sæta enn svo ótrúlegum ofsóknum, konurnar í Kosovo sem hröktust með börn sín í fanginu, fyrst til annars lands og síðan heim aftur í atvinnuleysi og oft á tíðum ofbeldi. Orð eru til alls fyrst og vonandi á þessi vitnisburður eftir að hafa áhrif á starfsaðferðir og sýn alls heimsins á hörmuleg áhrif styrjalda á líf kvenna og barna, samfélögin og umhverfið. Því miður er ekkert sem bendir til að nöturleg reynsla kvennanna á ófriðarsvæðunum 12 nái eyrum þeirra sem nú fægja byssuhlaupin. Allt bendir til þess að árás hefjist á Írak á allra næstu dögum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heiminn allan.

Kristín Ástgeirsdóttir

(Glærur með erindi)

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna
“Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan”
(Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 1948)

“Það ber að viðurkenna, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum”
(Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 1948).

“Hafi mannréttindi verið fyrir borð borin og lítilsvirt, hefur slíkt í för með sér siðlausar athafnir, er ofboðið hafa samvisku mannkynsins, enda hefur því verið yfir lýst, að æðsta markmið almennings um heim allan sé að skapa veröld, þar sem menn fái notið málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um einkalíf og afkomu”
(Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 1948).

“Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
(Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 1948).

Staða kvenna i heiminum
Aðeins 9 ríki í heiminum hafa náð því takmarki Sameinuðu þjóðanna að konur séu þriðjungur þingmanna.
Konur eru 14% þingmanna í heiminum.
Árið 1995 voru konur aðeins 3% fréttamanna í heiminum. Þær eru afar sjaldséðar meðal stríðsfréttamanna.
Konur eru skráðar fyrir rúmlega 1% eigna í heiminum, en vinna 2/3 hluta allra vinnustunda.
Konur eru 60-70% fátækra í heiminum.
Áætlað er að flóttamenn séu um 50 millj. manna. Konur og börn eru 80% flóttamanna.
Konur eru tveir þriðju hlutar ólæsra í heiminum.
Ein af hverjum þremur konum verður fyrir heimilisofbeldi eða ofbeldi á götum úti. Ofbledi eykst til muna á stríðstímum og eftir að átökum lýkur.
Ein af hverjum fimm konum í heiminum hefur orðið fyrir nauðgun. Stúlkur undir 16 ára aldri verða fyrir 40-60% allra kynferðisglæpa.
Konur eru nú helmingur þeirra 40 millj. manna sem þjást af alnæmi. Í Rwanda var alnæmi beitt sem vopni.
Einungis 0,7% þess fjár sem fór til uppbyggingar í Afganistan árið 2002 rann til kvenna sérstaklega.
Mansal jókst um helming frá 1995-2000. Áætlað er að um 2 milljónir kvenna séu árlega seldar til kynlífsþrælkunar.
Árið 2003 gera fjárlög Bandaríkjanna ráð fyrir að 296,1 milljörðum dollara verði varið til hermála. Það eru u.þ.b. 115 sinnum áætlaðar tekjur íslenska ríkisins árið 2003.
Á meðan allar stofnanir og sjóðir Sameinuðu þjóðanna verja samalagt 1,70 dollara á hvern jarðarbúa til hjálparstarfa, verja ríki heims 139 dollurum á mann til hernaðar!

Kvenna- og mannréttindasamtök um allan heim vinna að því að breyta þessari stöðu!

Fylgjum ályktun Öryggisráðsins nr. 1325 eftir. Rödd kvenna verður að heyrast og þær verða að hafa áhrif á stjórn heimsins til jafns við karla!