Föstudaginn 2. nóvember flytur Anna Karlsdóttir, lektor í land- og ferðamálafræði við HÍ, fyrirlestur um niðurstöður doktorsritgerðar sinnar sem hún varði nýlega við Hróarskelduháskóla. Fyrirlesturinn verður haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12.00-13.00.

Í erindinu verða rannsóknir Önnu á kynjasjónarhorn umbreytinga í strandbyggðum við Norður Atlantshaf raktar í alþjóðlegu samhengi svæðisbundinna breytinga með tilvísun til Norðurslóða. Hver er staða og reynsla fjölskyldna á stöðum þar sem efnahagsuppbygging og búseta tekur breytingum?  Anna dregur fram sjónarhorn pólitískrar hagrænnar landfræði á auðlindanýtingarháð strandsamfélög Norður Atlantshafs til að skilja og greina mismunandi hliðar auðlinda, fiskveiðistjórnunar og samfélagsbreytinga í ljósi nýfrjálshyggju, skjólstæðingssambands, kunningjastjórnsýslu og kyns. Hvaða áhrif hafa þær á konur sem íbúa samfélagsins og á brottflutninga? Í fyrirlestrinum verður einnig fjallað um framlag feminista til rannsókna á strandsvæðum í norðri en eins um framlag landfræðinga til kynjafræðinnar á þessu sviði.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Öll velkomin!