Á tímabilinu 19. september – 12. október 2003 var viðamikil viðhorfskönnun um jafnrétti kynjanna lögð fyrir 1200 einstaklinga af landinu öllu á aldrinum 18 til 75 ára Svarhlutfallið í könnuninni var 63%. Könnunin var unnin af Rannsóknarstofu í kvenna – og kynjafræðum við Háskóla Íslands í samstarfi við nefnd um efnahagsleg völd kvenna og Gallup-IMG. Hún var styrkt af nefnd um efnahagsleg völd kvenna, félagsmálaráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Nýsköpunarsjóði námsmanna og IMG-Gallup sem jafnframt framkvæmdi könnunina. Verkefnið er hluti af stærri rannsókn sem ber yfirskriftina „Jafnrétti í íslensku samfélagi – ímyndir og raunveruleiki“ sem unnin er hjá Rannsóknastofunni.

Könnunin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og var hún samin með hliðsjón af sambærilegum erlendum könnunum sem framkvæmdar eru með reglulegu millibili til að mæla breytingar á viðhorfum almennings til kynjajafnréttis. Stefnt er að því að íslenska könnunin verði framkvæmd af jafnréttisyfirvöldum á 2-3 ára fresti til að gefa vísbendingar um stöðu og þróun jafnréttismála í samfélaginu. Helstu efnisflokkar könnunarinnar eru; almenn viðhorf til stöðu kynjanna í íslensku samfélagi, reynsla og viðhorf til kynjajafnréttis á vinnumarkaði, samhæfing vinnu og einkalífs, kynferðisleg áreitni og viðhorf til mála sem eru ofarlega á baugi í jafnréttisumræðunni hverju sinni.

Hér eru kynntar fyrstu niðurstöður könnunarinnar, sem snúa að viðhorfum fólks til vændis og kynlífsþjónustu.

Niðurstöður

„Ertu sammála eða ósammála því að vændi sé frjálst val þeirra sem það stunda?“
Meirihluti svarenda er ósammála því að vændi sé frjálst val þeirra sem það stunda, eða 65%.
Marktækur munur er á viðhorfum kynjanna en 74% kvenna og 53% karla er ósammála því að vændi sé frjálst val þeirra sem það stunda.

„Ertu sammála eða ósammála því að það ætti að vera ólöglegt að kaupa kynlífsþjónustu?“
Meirihluti svarenda, eða 70,1%, er sammála því að það ætti að vera ólöglegt að kaupa kynlífsþjónustu.
Þó meirihluti svarenda séu sammála um að ólöglegt eigi að vera að kaupa kynlífsþjónustu kemur fram marktækur munur milli kynja. Þannig eru 79% kvenna sammála banni við kaupum á kynlífsþjónustu en 60% karla.

„Ertu sammála eða ósammála því að það ætti að vera löglegt að stunda vændi sér til framfærslu?“ (Hér var spurt um lögleiðingu vændis)
Rúm 80% svarenda eru ósammála því að það eigi að vera löglegt að að stunda vændi sér til framfærslu.
Marktækur munur er á milli kynja. Þannig eru 67% karla ósammála að það eigi að vera löglegt að stunda vændi sér til framfærslu á móti 92% kvenna.

„Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) banni við einkadansi?“ (Með einkadansi er átt við einkasýningar á nektardansi sem fara fram í lokuðu rými innan veitingastaða, gegn greiðslu áhorfenda)
Tæplega 60% svarenda er hlynntur banni við einkadansi.
Um er að ræða marktækan mun milli kynja, þar sem 63% kvenna er hlynnt banninu á móti 49% karla.