Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi

Guðrún Steinþorsdóttir er fimmti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Kona fer til læknis: Árekstrar í samskiptum lækna og kvensjúklinga“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 1. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Reglulega koma fram sögur jafnt á internetinu, í greinum, viðtölum og í ævisögum sem greina frá neikvæðum samskiptum kvensjúklinga við lækna. Þó þessar sögur hafi ekki verið birtar formlega undir formerkjum MeToo-hreyfingarinnar kallast þær í mörgu á við frásagnir sem tengjast henni því að höfundarnir eiga það sameiginlegt að hafa upplifað misrétti vegna kyns síns. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig komið er á mismunandi hátt fram við konur og karla í heilbrigðiskerfinu, rætt um hugsanlegar ástæður þess og afleiðingar og hvernig bókmenntafræði getur kannski gagnast til að betrumbæta samskiptin í framtíðinni.
Guðrún Steinþórsdóttir stundar doktorsnám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Síðustu ár hefur hún tekið þátt í ýmsum rannsóknarverkefnum og kennslu m.a. innan hugrænna fræða, læknahugvísinda og fötlunarfræði, einkum með áherslu á bókmenntir, samlíðan, tilfinningar, sársauka og ímyndunarafl.

Finndu viðburðinn á Facebook!

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur ókeypis.
***
Fyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er tileinkuð byltingu kvenna gegn áreitni og ofbeldi og þeim viðbrögðum, rannsóknum og aðgerðum sem af henni hafa hlotist og verður leitast við að rýna í ástæður, eðli og afleiðingar #MeToo-byltingarinnar frá margvíslegum sjónarhornum.
Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.