Kallað eftir greinum í Fléttur V

#metoo

Efni: Kall eftir greinum í Fléttur V

Frestur til að tilkynna um þátttöku og skil ágripa: 1. desember 2018

Skil greina: 20. janúar 2019

Lengd greina: 5.000-7.000 orð með neðanmálsgreinum

Útgáfa: September 2019

Rannsóknarstig: 10

RIKK hefur ákveðið að standa að útgáfu nýs fræðirits sem verður hluti af ritröð RIKK, Fléttur V. Um er að ræða safn ritrýndra greina sem valdar eru í gegnum opið kall. Gert er ráð fyrir að ritið komi út í september 2019. Ritsjórar greinasafnsins eru: Þorgerður H. Þorvaldsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir.

Heftið er tileinkað byltingu kvenna gegn áreitni og ofbeldi og þeim viðbrögðum, rannsóknum og aðgerðum sem af henni hafa hlotist og verður leitast við að rýna í ástæður, eðli og afleiðingar #metoo-byltingarinnar frá margvíslegu sjónarhorni og í kenningalegu samhengi.

Fyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er tileinkuð sama þema og er fyrirlesurum sérstaklega boðið að svara kallinu. Áætlað er að birta um 16 greinar. Þá verður einnig gefið út greinahefti á ensku um þemað og verður sérstakt kall sent út vegna þess. Möguleiki er á að sömu greinar birtist í báðum heftum.

Skila skal 200 orða ágripi um viðfangsefni fyrir 1. desember 2018. Gert er ráð fyrir að höfundar fái 10 rannsóknarstig fyrir birtinguna. Ágripum skal skilað í gegnum þar til gert form sem nálgast má hér: https://rikk.hi.is/rannsoknir-utgafa/skil-agripa/.

Ársins 2017 verður minnst fyrir það að þolinmæði kvenna fyrir kynferðislegri áreitni og ofbeldi þraut og #metoo-byltingin hófst. Konur í Hollywood urðu fyrstar til að stíga fram og greina frá brotum kvikmyndaframleiðans Harvey Weinstein. Hinn 24. nóvember braut bylgjan á Íslandsströndum þegar íslenskar stjórnmálakonur birtu fyrstu #metoo-yfirlýsinguna hér á landi, undir myllumerkinu #ískuggavaldsins, ásamt 136 frásögnum af áreitni og ofbeldi.

Frásagnir og áskoranir frá 15 kvennahópum komu fljótlega í kjölfarið frá konum í sviðslistum og kvikmyndagerð, konum í vísindum, konum innan réttarvörslukerfisins, konum í tónlist, konum í tækni-, upplýsinga- og hugbúnaðariðnaði, konum í læknastétt, konum í fjölmiðlum, konum í flugi, konum í menntakerfinu, konum í heilbrigðisþjónustu, konum í verkalýðshreyfingunni, konum í iðngreinum, konum í íþróttahreyfingunni, prestvígðum konum og konum af erlendum uppruna. Með yfirlýsingunum fylgdu fleiri hundruð frásagnir af áreitni og ofbeldi og þúsundir kvenna skrifuðu undir áskoranir.

Frestur til að skila greinum er 20. janúar 2019. Því næst mun ritstjórn velja úr þær greinar sem verða áframsendar í ritrýni og stefnt er að því að ritstjórnarvinna hefjist í byrjun mars.

Við ritstjórn verður miðað við reglur Ritsins um frágang greina: http://www.hugvis.hi.is/sites/hugvis.hi.is/files/snidskjal_-_ritid_0.pdf að því undanskildu að lengd greina í Fléttum IV miðast við 5.000-7.000 orð með neðanmálsgreinum.

Frekari upplýsingar veitir Kristín I. Pálsdóttir í netfanginu kip@hi.is eða í síma 525-4595.

Kallið má nálgast í PDF-skjali hér: Fléttur V. Kall eftir greinum.

Með kveðju,

Kristín I. Pálsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir