Jafnréttisráð auglýsir styrk til nema fyrir meistaraverkefni. Um er að ræða rannsókn sem ráðið vill láta vinna fyrir sig til að afla upplýsinga sem ráðið telur mikilvægar. Markmiðið er að kanna hvernig foreldrar brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Miðað er við lokaverkefni í meistaranámi, að lágmarki 30 ECTS einingar. Verkefnið getur hafist í haust og er miðað við að því ljúki á haustmisseri 2012 eða vormisseri 2013.

Verkefnið hentar nema í félags- eða menntavísindum og beita skal kynjafræðilegu sjónarhorni á verkefnið. Gert er ráð fyrir að rannsóknin verði spurningakönnun og/eða viðtalsrannsókn þar sem foreldrar ungra barna eru spurðir um hvernig þeir ráðstafa dagvistunarmálum barna sinna eftir að fæðingarorlofi lýkur auk þess sem spurt verður um atvinnuþátttöku foreldra.

Styrkurinn verður veittur nema sem sækir um í samráði við leiðbeinanda sinn. Umsókn skal vera á bilinu 200–500 orð þar sem fram kemur nánar hvernig umsækjandi telur rétt að standa að rannsókninni og hvaða öðrum spurningum sé mikilvægt að svara. Leiðbeinandi getur ekki sótt um fyrir ótiltekinn nemenda. Styrkurinn er að upphæð kr. 450.000 og verður greiddur út í tvennu lagi, fyrri helmingur þegar þriðjungi vinnunnar er lokið að mati leiðbeinanda og síðari helmingur þegar verkefni er lokið og ráðið fær kynningu á niðurstöðum auk eintaks af rannsókninni.

Allar nánari upplýsingar veitir Hugrún R. Hjaltadóttir, starfsmaður Jafnréttisráðs, í netfanginu hugrun[hja]jafnretti.is eða síma 561 6509. Umsóknarfrestur er til 14. október 2011. Umsókn og ferilskrá, ásamt staðfestingu leiðbeinanda, skal senda til Jafnréttisráðs í pósti merkt Umsókn til Jafnréttisstofu, Túngata 14, 101 Reykjavík.