Föstudaginn 12. október flytur Nanna Hlín Halldórsdóttir, doktorsnemi í heimspeki við HÍ, erindi sem ber heitið „Jafnrétti eða jafnræði? Nokkur dæmi úr íslenskri jafnréttisumræðu út frá valdagreiningu Foucault“. Fyrirlesturinn verður haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12.00-13.00.

Hugtakið jafnrétti hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu, þá sérstaklega hvað varðar jafnrétti kynjanna. Núna um hundrað árum eftir að hugmyndin um „jafnan rétt“ var fyrst viðurkennd í lagabókstafnum veltum við enn fyrir okkur að hve miklu leyti jafnrétti í lögum hafi með okkar daglega líf að gera. Samkvæmt valdagreiningu Michel Foucault er vald eitthvað sem á sér stað í tengslum manna á milli. Í fyrirlestrinum mun Nanna Hlín fjalla um jafnrétti út frá valdakenningum Foucaults í tengslum við jafnréttisumræðuna á Íslandi í dag.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Öll velkomin!