Ör-erindi Erlu Huldu Halldórsdóttur, dósents í kvenna- og kynjasögu, á málþinginu „„Minna hot í ár.“ Stjórnmálaorðræða á Íslandi, annó 2018“, umkvenfyrirlitningu, þöggun og tvískinnung í íslenskri stjórnmálaorðræðu sem fór fram á vegum Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – RIKK – við Háskóla Íslands og Kvenréttindafélags Íslands, í Veröld – húsi Vigdísar hinn 5. desember 2018. Sjá nánar hér.

 

Ímyndir og ómyndir. Orðræður um konur

Erla Hulda Halldórsdóttir, dósent

Frá upphafi hafa verið til staðar hugmyndir um mismunandi hlutverk og eðli kynjanna. Karlmenn eru tengdir við skynsemi og rökhugsun – konur við tilfinningar og órökvísi. Karlar tilheyra almannasviðinu: rými athafna, pólitíkur og valds en konur einkasviðinu: heimili og börnum.

Um þetta, meðal annars, fjallar Mary Beard prófessor við Cambridge-háskóla í bók, þar sem hún ræðir um þá eldgömlu hefð að segja konum að halda kjafti og vera sætar – um tungumálið þar sem karlmaðurinn hefur málið, ræðuna og rökvísina, á sínu valdi. Rödd hans er djúp og valdsmannsleg en rödd kvenna hefur aldrei verið nógu góð, hvorki út frá því hvernig hún hljómar né því sem hún segir. Þessar hugmyndir, segir Beard, hafa enn mótandi áhrif á okkur.

Undirliggjandi er ótti við konur sem láta ekki segja sér fyrir verkum. Þær eru talaðar niður, jafnvel með klámmeiningum, eins og Bríet Bjarnhéðinsdóttir kallaði orð Jóns Þorkelssonar, sem sagði á þingi árið 1911 að konur væru góð guðsgjöf til síns brúks en ekki til þess færar að sinna störfum og embættum sem „körlum væru sérstaklega ætluð“.[1]

Kvenfrelsismaðurinn Ólafur Ólafsson kallaði þessa trú á gamlan vana og yfirburði karlmannsins „kynferðishroka“ árið 1891.[2]

Kynferðishrokinn hvarf ekki þótt konur fengju sama rétt og karlar á fyrstu áratugum 20. aldar. Áfram lifði orðræðan um yfirburði hins karllega, líkt og við heyrðum hjá Ragnheiði Kristjánsdóttur og Irmu Erlingsdóttur hér að framan, konur voru ekki fullgildir þegnar í samfélaginu. En þær halda samt áfram. Sækja sér menntun, fá embætti. Fá völd. Og þær hafa rödd og tala. Halda kannski að nú þær séu virtar að verðleikum.

En þá slær feðraveldið til baka því það á sér sína talsmenn, bæði í hópi karla og kvenna, kvenna sem þiggja vald og viðurkenningu frá hinu karllega valdi en þær ógna því ekki – eru það sem fræðin kalla styðjandi kvenleiki. Feðraveldið slær til baka með gamalkunnugri orðræðu þar sem konur eru settar niður, allra helst á klúran og klámfenginn hátt, þær eru eftir allt kynið (e. the sex) — eru skilgreindar út frá eggjastokkunum, eins og Simone de Beauvoir skrifaði árið 1949, en eistu karla skipta ekki nokkru einasta máli.[3]

Ég gæti sagt að við ættum ekki að hafa áhyggjur, því þetta séu ekki karlar almennt, karlar keppast jú við að fordæma það sem er tilefni þessa málþings í dag. Vandinn er hins vegar sá að um allan hinn vestræna heim vex popúlískum hreyfingum fiskur um hrygg og þangað fjölmenna karlar haldnir kynferðishroka. Þeir tala fyrir hefðbundinni hlutverkaskiptingu kynjanna og hatast við fræði og þekkingu á borð við þá sem hér er lögð á borð.

Ég hef fylgst með framgangi ungverskra stjórnvalda í þessu efni því þar í landi starfar góð vinkona við Central European University, og berst við feðraveldið og líflátshótanir með þekkingu og orð að vopni. En stjórnvöld/feðraveldið slær til baka sem aldrei fyrr og hefur bannað nám í kynjafræðum. Hvers vegna? Jú, því mest af öllu óttast þessir karlar gáfur kvenna. Það sem þeir þola verst eru konur sem neita að gangast undir skilyrði styðjandi kvenleika og viðurkenna yfirburði og vald karla.

Sjá nánar um það efni sem hér er rætt í:

Erla Hulda Halldórsdóttir, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 (Háskólaútgáfan/RIKK/Sagnfræðistofnun 2011).

Erla Hulda Halldórsdóttir, „Að ganga út fyrir sitt gólf. Orðræða um konur“, Hugrás. Vefrit Hugvísindasviðs, birt 30. nóvember 2018: http://hugras.is/2018/11/ad-ganga-ut-fyrir-sitt-golf-ordraeda-um-konur/.

Mary Beard, Women & Power. A Manifesto. Updated. London: Profile Books, London Review of Books 2018.

[1] Kvennablaðið 5. maí 1911, bls. 17: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2223584.

[2] Ólafur Ólafsson, Olnbogabarnið. Reykjavík 1891,  http://baekur.is/bok/000302099/Heimilislifid.

[3] Simone de Beauvoir, „Hitt kynið – Inngangur“, þýð. Torfi Tulinius, Simone de Beauvoir. Heimspekingur, rithöfundur, femínisti. Ritstj. Irma Erlingsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir. Reykjavík: Rannsóknastofa í kvennafræðum, 1999,  bls. 25–46. Þessi orð af bls. 28–29.