Katrín Harðardóttir er annar fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2021. Fyrirlestur Katrínar nefnist „Hvað getur femínismi gert fyrir þýðingar? Femínísk þýðingafræði og möguleikar í merkingu mismunar” og verður haldinn kl. 12.00 þann 28. október í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Í fyrirlestrinum mun Katrín snerta á fræðilegum grunni femínískrar þýðingafræði og skoða hvernig mismunur í þýðingum öðlaðist aukið brautargengi á seinni hluta síðustu aldar. Hún tæpir á því hvaða áhrif sú þróun hafði á hugmyndir um merkingu orða og jafngildi þeirra á milli tungumála og fjallar um hvernig aðferðir femínískra og hinsegin þýðingafræðinga geta aukið skilning á þeim átökum sem eiga sér stað þýðingarferlinu. Þegar mismunur í merkingu er hafður að leiðarljósi við þýðingar er hægt að komast hjá fyrirframgefnum hugmyndum um algildi og auka skilning á annarleikanum. Til þess að varpa ljósi á fræðin verður sagt frá rannsóknum úr femínískri þýðingasögu og tekin vel valin dæmi úr öðrum hversdagslegri textum til að útskýra ofangreint þýðingarferli.

Katrín Harðardóttir er bókmennta- og nytjaþýðandi úr ensku og spænsku. Hún hefur stundað doktorsnám í femínískum þýðingafræðum, með áherslu á annarleika, mismun og jafnrétti.

Að fyrirlestri loknum verður upptaka gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube-rás Hugvísindasviðs.

25. ágúst á þessu ári voru liðin 30 ár frá stofnun RIKK, eða Rannsóknastofu í kvennafræðum eins og stofnunin hét á fyrstu starfsárum sínum. Að því tilefni tekur hádegisfyrirlestraröð stofnunarinnar á haustmisseri 2021 stöðuna á jafnréttisrannsóknum þar sem litið er til þess hvert kvenna-, kynja- og jafnréttisrannsóknir stefna með áherslu á nýja rannsakendur á þessu sviði. Umfjöllunarefni fyrirlestrana eru fjölbreytt og endurspegla breiddina í jafnréttisrannsóknum.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á póstlista RIKK hér og fá tilkynningar um viðburði senda í tölvupósti.