Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi

Efni: Kall eftir fyrirlestrum og greinum um hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi
Frestur til að tilkynna um þátttöku og skil ágripa: 14. desember 2021
Skil greina: 1. nóvember 2022
Lengd greina: 5.000-7.000 orð með neðanmálsgreinum
Rannsóknarstig: 10

RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum stendur að tveimur hádegisfyrirlestraröðum og útgáfu nýs fræðirits sem verður hið sjöunda í ritröð RIKK, Fléttur, þar sem íslenskt samfélag, saga og menning verða greind út frá sjónarhorni hinsegin fræða. Efnið verður valið í gegnum opið kall og greinarnar verða ritrýndar. Fyrirlestraraðirnar fara fram á vor- og haustmisseri 2022 og vonir standa til að ritið komi út haustið 2023. Ritstjórar eru Ásta Kristín Benediktsdóttir og Elín Björk Jóhannsdóttir.

Hinsegin rannsóknir (e. queer studies) er ört vaxandi fræðasvið hér á landi þar sem sjónum er hvort tveggja beint að tilteknu viðfangsefni, sem getur talist hinsegin í víðum skilningi, og beitingu hinsegin sjónarhorns á grundvelli hinsegin fræða. Hinsegin fræði eru náskyld kynjafræði en á báðum sviðum er leitast við að varpa gagnrýnu ljósi á fjölbreytt valdatengsl og afbyggja — afhjúpa og skjöna — hið gagnkynhneigða forræði og það sem telst hefðbundið kyn eða kynverund í því skyni að beina athyglinni að þeim áhrifum sem slíkar hugmyndir hafa á fólk, samfélag og menningu. Hinsegin fræði og kynjafræði eru þannig nátengd baráttu hinsegin fólks og hafa, ásamt henni, haft margvísleg áhrif á tungumál, lagaramma, bókmenntir, listir, hugmyndir og viðhorf, auk samfélagsins sjálfs. Áhersla verður lögð á fjölbreyttar og þverfaglegar rannsóknir á hinsegin Íslandi fyrr og nú og gagnvirku sambandi þess við önnur samfélög og menningarsvæði. Hér er því kallað eftir efni af sem flestum fræðasviðum þar sem fjallað er um hinsegin hliðar íslensks samfélags, menningar og sögu í alþjóðlegu samhengi.

Skila skal ágripi um viðfangsefni fyrir 14. desember 2021. Gert er ráð fyrir að höfundar fái 10 rannsóknarstig fyrir birtingu í Fléttum. Ágripum skal skilað í Word-skjali á tölvupóstfangið elinbjork@hi.is. Þar skal koma fram:

titill
200-250 orða ágrip
lykilorð (4-5)
höfundur/ar
starf/staða höfunda/r

Höfundar skulu miða við reglur Ritsins um frágang greina, að því undanskildu að lengd greina í Fléttum miðast við 5.000-7.000 orð með neðanmálsgreinum.

Frekari upplýsingar veitir verkefnisstjóri RIKK, Elín Björk Jóhannsdóttir, í netfanginu elinbjork@hi.is eða í síma 525-5230.

Kallið má nálgast í PDF-skjali hér.