Dr. Jyl J. Josephson er Fulbright kennari á vegum RIKK og mun kenna námskeiðið Pólitísk stefnumótun og kynverund (e. Politics of Sexuality) við Háskóla Íslands á vormisseri 2011. Jyl er dósent í stjórnmálafræði ásamt því að vera forstöðukona Kvennafræða við Rutgers háskóla í Bandaríkjunum. Hún er höfundur fjölda greina um kyngervi og opinbera stefnumótun; höfundur bókarinnar: Gender, Families, and State: Child Support Policy in the United States (Rowman & Littlefield, 1997); og einn ritstjóra bókarinnar Fundamental Differences: Feminists Talk Back to Social Conservatives (Rowman & Littlefield 2003). Það er mikill fengur að fá Jyl hingað til kennslu við Háskóla Íslands og við bjóðum hana velkomna!

Sjá frekari upplýsingar um Jyl hér.

Jyl mun einnig halda fyrirlestur hjá RIKK þann 10. mars en erindi hennar heitir: „Obama’s Fatherhood Initiative: New Fathers or Neopatriarchy?“

Hér eru upplýsingar um námskeiðið sem hún kennir á vormisseri:

Heiti námskeiðs: Politics of Sexuality / Pólitísk stefnumótun og kynverund

Námskeiðslýsing: Í námskeiðinu verður fjallað um pólitísk málefni, félagslegar hreyfingar og deilur í tengslum við kyn, kyngervi, kynhneigð og kynverund. Skoðaðar verða ýmis konar opinberar stefnur bæði í sögulegu samhengi og í tengslum við kenningar um kyngervi og kynverund. Sérstaklega verður litið til pólitískrar stefnumótunar í Bandaríkjunum í samanburði við önnur iðnvædd lýðræðisríki. Fjallað verður um mikilvægi þess að samtvinna sjálfsmyndabreytur á borð við: kynþátt (þjóðerni), stétt, kyn, kyngervi, kynhneigð, kynjaða sjálfsmynd; og hvernig slík samtvinnun hefur áhrif á opinber ákvörðunartökuferli, virkjun félagslegra og pólitískra hreyfinga, og stefnumótun á vegum hins opinbera í ólíkum ríkjum. Leitað verður í kenningarsmiðju femínískra- og hinseginfræða til að greina opinbera stefnumótun.

Námskeiðið er kennt á ensku.