Frásagnir af ömmum

Amma í fjöruferðÍ tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna verður frásögnum um ömmur og langömmur nú safnað í þjóðháttasafn Þjóðminjasafns Íslands.

Söfnunin tengist rannsóknarverkefni á vegum Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (RIKK) og Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands um sögu kvenna á 20. öld. Söfnunin er jafnframt liður í þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafns Íslands.

Það sem leitað er eftir eru fyrst og fremst eigin minningar fólks. Markmiðið er þó ekki að skrifaðar séu „ævisögur“ heldur frekar svipmyndir af kynnum almennings við ömmur og langömmur sínar. Þó verður tekið við lengri frásögnum, t.d. um lífshlaup ömmu eða langömmu. Hægt er að velja á milli þess að skrifa algerlega frjálst og eftir eigin höfði eða að styðjast við nokkur minnisatriði til að móta frásögnina (sjá nánar í sjálfri spurningaskránni).

Frásögninni má skila hvort heldur með nafni eða nafnlaust og á það einnig við um nafngreiningar á ömmum. Hvort sem valið er, er litið svo á að þátttakendur hafir samþykkt að frásögn tilheyri gagnasafni Þjóðminjasafns Íslands. Safninu er þá heimilt að skrá frásögnina í stafrænan gagnagrunn og gera hana aðgengilega almenningi, fræðimönnum og öðrum. Einnig að frásögnin sé afrituð í þágu almennings og til rannsókna.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Þjóðminjasafnsins og einnig er hægt að hafa samband í síma 530 2246 eða senda tölvupóst á agust@thjodminjasafn.is.

 

Hér má sjá frásagnir sem borist hafa í söfnuninni:

Marína Baldursdóttir (1908-1978)

Frásagnir af tveimur ömmum