Fléttur III – Jafnrétti, menning, samfélag

Flettur_III_v6_FinalÞriðja greinasafnið í ritröð RIKK, Fléttur III, kom út í ársbyrjun 2014. Viðfangsefni bókarinnar eru birtingarmyndir misréttis í samfélagi og menningu og áhrif þess á aðstæður karla og kvenna. Má þar nefna átök femínista af ólíkum skólum á Íslandi, misnotkun valds og andóf í kristinni trúarhefð og stöðu kvenna í bókmenntum og kvikmyndum. Í bókinni er sjónum jafnframt beint að samtvinnun ólíkra þátta mismununar, skörun fötlunar og kyngervis, og íslenskri friðargæslu í ljósi femínískra öryggisfræða. Einnig er rætt um þær afleiðingar sem ofríki karllægrar hugmyndafræði hafði í fjármálakreppunni árið 2008 og í umræðunni um loftslagsbreytingar.

Fléttur III – Jafnrétti, menning, samfélag er þriðja greinasafnið í Fléttum ritröð RIKK, Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, en þetta er 20 ára afmælisrit stofnunarinnar. Fléttum er ætlað að kynna niðurstöður jafnréttisrannsókna og koma á framfæri fræðilegum greinum um kvenna- og kynjafræði, femínisma og jafnréttismál í víðum skilningi, og spegla þá miklu breidd sem er í jafnréttisfræðum bæði hér heima og erlendis. Í þessu þriðja greinasafni Flétta má finna 12 greinar eftir íslenska og erlenda höfunda og lúta sum umfjöllunarefnin að séríslenskum kringumstæðum en önnur hafa alþjóðlega skírskotun

Greinar í Fléttum III eru:

 • Alda Björk Valdimarsdóttir: „Ég er ekki þunn!“: Tobba Marínós, kvenfrelsisumræðan og íslensk skvísumenning“.
 • Arnfríður Guðmundsdóttir: Krossinn og konurnar: Misnotkun valds, andóf og eftirbreytni í kristinni trúarhefð.
 • Benedikt Hjartarson: Andinn og eggjastokkurinn: Um framúrstefnu, dulspeki og klám.
 • Björn Ægir Norðfjörð: Spegilmyndir: Höfundarverk Alfreds Hitchcock, sálgreining og femínísk kvikmyndafræði.
 • Björn Þór Vilhjálmsson: „Þú skrifaðir þetta?“: Ofbeldi, kynferði og (verndar)máttur skáldskaparins í Laugardegi eftir Ian McEwan.
 • Cynthia Enloe: DSK, víkingar og mestu snillingarnir: Karlgervi í bankahruninu 2008.
 • Dagný Kristjánsdóttir og Katrín María Víðisdóttir: Í frásagnarspeglasalnum: Um Sólskinshest Steinunnar Sigurðardóttur.
 • Daisy L. Neijmann: „Sem allur þungi heimsstyrjaldar lægi í skauti hennar“: Ástandskonur í fyrstu íslensku hernámsgögnunum.
 • Joni Seager: Gráðum að bráð: Femínísk grannskoðun á tveggja gráðu loftslagsstefnu.
 • Kristín Björnsdóttir: „Ég fékk engan stuðning í skólanum“: Fötlun, kyngervi og stétt.
 • Silja Bára Ómarsdóttir: „Maður finnur svo mikla ást“: Frásagnir kvenna af friðargæslustörfum.
 • Þorgerður H. Þorvaldsdóttir: Jafnrétti fyrir alla: Eitt markmið ólíkar leiðir.

Ritstjórar: Annadís G. Rúdólfsdóttir, Guðni Elísson, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Irma Erlingsdóttir.

Útgefendur: RIKK og Háskólaútgáfan.

Menningarsjóður Hlaðvarpans, Reykjavíkurborg, Rannsóknasjóður Hugvísindastofnunar og EDDA – öndvegissetur styrktu útgáfuna.