Þann 15. mars flytur Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf, fyrirlesturinn Er öldin önnur: Um breytt viðhorf kynjanna til foreldrasamstarfs eftir skilnað.

Í fyrirlestrinum er fjallað um hvernig samfélagsumbrot og umbylting gilda og lífshátta undir aldarlok endurspeglast í breyttum fjölskylduaðstæðum. Athygli er beint að því hvernig breytt staða beggja kynja hefur riðlað hefðbundum hugmyndum um kynbundna hæfileika, hlutverkaskipan og verkaskiptingu jafnt á heimilum sem á starfsvettvangi. Reynt er að skilgreina hvernig ytri aðstæður og menningarþættir hafa skapað aðrar þarfir og breyttar áherslur í uppeldi barna um leið og viðhorf til fjölskylduskuldbindinga og foreldraábyrgðar hafa breyst.

Efniviður fyrirlestrarins byggist m.a. á kenningum samfélagsrýna eins og Zygmunt Baumans og Ulrich Becks, og settar eru fram hugmyndir um þá farvegi sem breytingarnar virðast fylgja. Sagt er frá niðurstöðum norrænnna rannsókna í félagsráðgjöf á þessu sviði. Vísað er til tveggja íslenskra rannsókna um uppeldisaðstæður barna, viðhorf og samstarf foreldra eftir skilnað og kynntar nýjar niðurstöður rannsóknar um hvern þátt forsjárfyrirkomulag getur átt í nútíma foreldrasamstarfi.