EDDA styrkt til næstu fjögurra ára

Stjórn Markáætlunar um öndvegissetur og klasa (Rannís) hefur ákveðið að framlengja styrkveitingu sína til EDDU til næstu fjögurra ára. RIKK er ein helsta samstarfsstofnun EDDU og hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu setursins frá upphafi. Styrkurinn nemur 35 milljónum króna á ári.  EDDA, sem er sjálfstæð og þverfagleg rannsóknastofnun með heimilisfesti á Hugvísindasviði, hlaut öndvegisstyrk til þriggja ára árið 2009. Ákvörðun stjórnarinnarer í samræmi við niðurstöðu mats erlendra sérfræðinga sem tóku út starfsemi setursins á tímabilinu 2009–2012. Töldu matsmennirnir að mjög vel hefði tekist til með uppbyggingu EDDU, starfsemi setursins og rannsóknir á vegum þess. Auk þess hefði setrið haft áhrif á opinbera stefnu og umræðu. Með styrkveitingum sínum hefði EDDA eflt þverfaglegar rannsóknir við Háskóla Íslands og stofnað til víðtækra tengsla við erlendar og innlendar háskóla- og rannsóknastofnanir. EDDA mun halda áfram að styrkja rannsóknir á áherslusviðum setursins, skipuleggja ráðstefnur og aðra viðburði og leitast við að hafa áhrif á opinbera stefnumótun.

EDDA er rannsóknastofnun í gagnrýnum samtímarannsóknum með áherslu á jafnrétti. Af alþjóðlegum ráðstefnum sem setrið hefur skipulagt ber helst að nefna tvær: „(In-) Equalities, Democracy and the Politics of Transition“ sem fór fram árið 2012 og „Crisis and Renewal: Welfare States, Democracy and Equality in Hard Times“ sem var haldin árið 2011. Á þessum ráðstefnum voru kynntar helstu niðurstöður rannsókna sem hafa farið fram á vegum setursins á fyrstu starfsárum þess. Síðastliðin þrjú ár hefur EDDA styrkt 26 rannsóknaverkefni og staðið að um 40 viðburðum, þ.e. ráðstefnum, málstofum og fyrirlestrum.

Verkefnisstjóri EDDU er dr. Irma Erlingsdóttir en auk hennar sitja í stjórn setursins Valur Ingimundaron, prófessor í sagnfræði (formaður),  Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki og Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði. Sjá nánar um starfsemi setursins á heimasíðu þess: www.edda.hi.is